Skoðun

Þið munið hann Rambó?

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Við Donald Trump erum með sama íslenska geðlækninn og mikið varð ég glaður þegar hann lýsti Trump nýlega heilan á geði. Þar sem heimska flokkast ekki sem geðsjúkdómur er nefnilega næsta víst að þarna hefur Óttar Guðmundsson rétt fyrir sér.

Ólíkt geðsjúkdómum er því miður ekki hægt að meðhöndla heimskuna og staðreyndablindur sértrúarsöfnuðurinn sem fylgir Trump í geggjaðri afneitun bendir einnig til þess að heimskan sé bráðsmitandi. Geðveiki er það ekki.

Trump-hjörðin upphefur hann stundum með því að líkja honum við Ronald Reagan! Þótt margt misfagurt megi segja um Reagan má halda því fram að hann hafi staðið vörð um eitthvað sem kalla má „amerísk gildi“.

Stallone-myndirnar um Rambó eru frábær vitnisburður um hversu skelfilega Repúblikanaflokkurinn og fjöldi Bandaríkjamanna hefur látið Trump afvegaleiða sig. Reagan hafði Rambó í miklum hávegum. Var meira að segja kallaður „Ronbo“ enda tengdi hann kempuna stundum við utanríkisstefnu sína.

Rambó var helmassað lukkutröll Reagans og gamla góða flokksins en stendur í raun fyrir allt sem Trump hatar. Sovétmenn (nú Rússar) voru erkifjendur Reagans og Rambós. Allt daður Trumps við Pútín væri auðvitað eitur í beinum þessara kaldastríðshauka.

Rambó barðist í Víetnam, var handsamaður og pyntaður (svona eins og John McCain). Trump, sem kom sér undan herskyldu, fyrirlítur svona ekta „ammrískar hetjur“. Trump er eins óamerískur og hugsast getur og það er alveg galið að reyna að verja veru hans í Hvíta húsinu með minningu Reagans.

Spyrjið bara Rambó.




Skoðun

Sjá meira


×