Innlent

Ekki merkilegur árangur að skila afgangi

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson sagði alla skattstofna í hápunkti.
Þorsteinn Víglundsson sagði alla skattstofna í hápunkti. Vísir/Ernir
„Efnahagsuppbygging síðustu ára hefur skilað miklum árangri. Afgangur af viðskiptajöfnuði og af afkomu hins opinbera endur­speglast í auknum þjóðhagslegum sparnaði en auk þess sem skuldir ríkissjóðs hafa verið lækkaðar hafa háar fjárhæðir verið greiddar inn á lífeyrisskuldbindingar,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sem mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs á Alþingi í gær.

Bjarni sagði til mikils að vinna með því að styrkja félagslegan og efnahagslegan stöðugleika.

Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, sagði alla skattstofna vera í hápunkti.

„Það er ekki sérstaklega merkilegur árangur í íslensku sveiflunni að skila ríkissjóði með afgangi á þessum tímapunkti. Það er hins vegar alveg sérstaklega merkilegur árangur að ná að eyða öllum þeim peningum,“ sagði Þorsteinn sem spurði hvaða skatta ætti að hækka vegna 200 milljarða útgjaldaaukningar á næstu fimm árum.

Ráðherra sagðist ekki vera að huga að neinum skattahækkunum.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að svigrúm til að bæta kjör hinna lægst launuðu væri ekki verið að nýta.

„Við þurfum að fá nýja ríkisstjórn sem er með sanngjarnari forgangsröðun, sem forgangsraðar í þágu venjulegs fólks í þessu landi. Þessi ríkisstjórn staðfestir með þessu frumvarpi að hún er ekki að gera það.“

Fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarpið lýkur í dag en þá munu fagráðherrar taka þátt í umræðum um einstaka málaflokka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×