Erlent

Orban sakar ESB um að ætla að senda málaliða til Ungverjalands

Samúel Karl Ólason skrifar
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands,
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, Vísir/AP
Ríkisstjórn Ungverjalands mun taka ákvörðun á mánudaginn um lagaleg skref sem ríkið mun taka varðandi Evrópusambandið. Evrópuþingið samþykkti í vikunni að beita Ungverja fordæmalausum refsiaðgerðum vegna meintra brota ríkisstjórnar Viktor Orban gegn grunngildum sambandsins. Ástæðan er árásir ríkisstjórnar Viktors Orban forsætisráðherra á fjölmiðla, minnihlutahópa og réttarríkið.

Orban sagði í útvarpsviðtali í morgun að hann búist við mikilli umræðu um málið. Hins vegar hefur ekki verið ákveðið innan ESB hvaða refsiaðgerðum verður beitt gegn Ungverjalandi.

Þeir gætu verið sviptir atkvæðisrétti innan Evrópusambandsins en það þykir ólíklegt.

Tveir þriðju þingamanna Evrópuþingsins þurftu að samþykkja tillöguna og kusu 448 með henni og 197 gegn. Þjóðarleitogar ESB munu ákveða hvaða aðgerða gripið verður til.

Orban sagði einni í áðurnefndu viðtalið að stutt væri í kosningar á Evrópuþingið og að dagar núverandi þings væru taldir.

Þá gagnrýndi hann Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, fyrir að hafa hvatt ríki Evrópu í gær til að tryggja Frontex, landamæraeftirliti Evrópu, völd til að stöðva ólöglega innflytjendur, samkvæmt áætlun framkvæmdaráðs ESB.

„Þannig að áætlunin er að ef Ungverjaland getur ekki verið þvingað til að hleypa innflytjendum inn, þá verður að svipta landið réttinum til að vernda landamæri sín,“ sagði Orban. Hann sakaði sömuleiðis ESB um að ætla að senda málaliða inn í Ungverjaland svo þeir gætu tryggt að innflytjendum yrði hleypt þar inn, án þess þó að færa nokkur rök fyrir máli sínu.

Orban hefur grafið verulega undan lýðræði í Ungverjalandi á undanförnum árum og hefur hann jafnvel verið sakaður um einræðistilburði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×