Enski boltinn

Gylfi á lista með Silva og Salah yfir þá sem að skapa flest færi í deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er í lykilhlutverki hjá Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson er í lykilhlutverki hjá Everton. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson er á lista á meðal stórstjarna ensku úrvalsdeildarinnar sem að skapa flest færi fyrir samherja sína samkvæmt úttekt enska blaðsins Daily Mirror.

Að skapa færi og að gefa stoðsendingu er ekki það sama því að samherjar þeirra sem að búa til færin þurfa augljóslega að koma blessuðum boltanum í netið svo að það skráist sem stoðsending.

Gylfi er búinn að spila 299 mínútur af 360 hjá Everton á þessari leiktíð og skapa í heildina níu færi fyrir félaga. Samherjar hans hafa nýtt eitt af þessum færum en hann er með eina stoðsendingu í deildinni til þessa.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eina mark sitt á tímabilinu á móti Rotherham United í enska deildabikarnum.Vísir/Getty

Silva bestur

Íslenski landsliðsmaðurinn er í þriðja sæti listans ásamt Willian hjá Chelsea, José Holebas hjá Watford og Ryan Fraser hjá Bournemouth. Allir hafa skapað níu færi í fyrstu fjórum leikjum ensku úrvalsdeildarinnar.

Eden Hazard, Sergio Agüero og Andrew Robertson er fyrir ofan þá með tíu sköpuð færi en David Silva, leikmaður Man. City, og Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, tróna á toppnum með þrettán sköpuð færi.

David Silva skapar færi fyrir Manchester City á 18,7 mínútna fresti sem er náttúrlega ótrúleg tölfræði en Eden Hazard kemur þar næstur með skapað færi á 22,3 mínútna fresti. Alexis Sánchez er í þriðja sæti en hann skapar færi fyrir samherja sína hjá Man. Utd á 23,3 mínútna fresti.

Er Gylfi í vandræðum eða ekki?vísir/getty

Vandræði?

Gylfi er aðeins neðar á þeim lista en hann skapar færi fyrir Everton á 33,2 mínútna fresti og gerir betur en leikmenn eins og Sergio Agüero og Henrikh Mkhitaryan.

Þessi tölfræði er nokkuð mögnuð í ljósi þess að samkvæmt úttekt Sky Sports um „erfiðleika“ Gylfa Þórs á tímabilinu kemst hann varla í boltann hjá Everton og þá skapaði hann aðeins sextán færi í opnum leik allt síðasta tímabil.

Hann er aðeins með fimmtán heppnaðar að meðaltali á hverjar 90 mínútur en þar er hann aðeins í 79. sæti af þeim 83 miðjumönnum sem spila alvöru mínútur í ensku úrvalsdeildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×