Enski boltinn

Vonaði að íslensku strákarnir myndu sparka Hazard niður

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Aron Einar Gunnarsson og liðsfélagar hans í Cardiff undirbúa sig nú fyrir stórleik á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Aron Einar er þó enn frá vegna meiðsla.

Cardiff er enn án sigurs eftir fjóra leiki en búið að gera tvö jafntefli. Chelsea fer frábærlega af stað undir stjórn Maurizio Sarri og er búið að vinna alla fjóra leiki sína til þessa.

Warnock veit að Chelsea-liðið er frábært en það eru tveir leikmenn sem að hann hefur sérstaklega miklar áhyggjur af; Eden Hazard og Willian.

„Ég var að vonast eftir því að Barcelona myndi kaupa Willian í sumar og Hazard færi til Real Madrid. Þeir eru svo ótrúlega góðir,“ segir Warnock í viðtali við Evening Standard.

Eden Hazard er í frábæru formi þessa dagana en hann fer varla inn á fótboltavöllinn án þess að skora eða leggja upp. Íslendingar urðu vitni að því á þriðjudaginn en Hazard skoraði þá úr víti fyrir Belgíu í 3-0 sigri bronsliðs HM á Laugardalsvellinum.

„Menn reyna að sparka hann niður en hann elskar það. Hann vill bara spila. Ég elska viðhorf hans til fótboltans. Ég skil vel hvers vegna Chelsea lét hann ekki fara því hann er svo stór hluti af því sem að liðið er að reyna að gera,“ segir Warnock og slær svo á létta strengi eins og alltaf:

„Hvernig á maður að stöðva Hazard? Það má Guð vita. Ég var að vonast eftir því að íslensku leikmennirnir myndu sparka hann niður þegar að hann spilaði fyrir Belgíu í vikunni. En í alvöru talað verður það ekki uppleggið okkar,“ segir Neil Warnock.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.