Íslenski boltinn

Faðir Olivers skoraði síðast þegar að Blikar mættu Stjörnunni í bikarnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Oliver fagnar marki með Blikum
Oliver fagnar marki með Blikum vísir/bára
Breiðablik og Stjarnan mætast annað kvöld í úrslitaleik Mjólkurbikars karla í fótbolta á Laugardalsvelli klukkan 19.15. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD en upphitun hefst klukkan 18.45.

Þessi nágrannalið hafa mæst 55 sinnum í mótsleikjum á vegum KSÍ, þar á meðal tvisvar í Pepsi-deildinni í sumar. Stjarnan vann báða leikina, 2-1 í Garðabænum og 1-0 í Kópavogi í leik sem gerði út um titilvonir Breiðabliks.

Breiðablik og Stjarnan hafa aðeins tvívegis mæst í bikarnum sem er nokkuð ótrúlegt. Fyrri leikurinn fór fram á Melavellinum árið 1970 en þá vann Breiðablik auðveldan 11-0 sigur. Sá leikur var í undankeppni bikarsrins.

Níu árum síðar mættust liðin aftur á Kópavogsvelli í 2. umferð bikarsins árið 1979 og aftur vann Breiðablik. Leikar voru öllu jafnari í þeim leik en Blikar höfðu aftur sigur, 3-2.

Þór Greiðarsson skoraði tívegis fyrir Kópavogsliðið en Sigurjón Rannversson eitt. Sigurjón er einmitt faðir Olivers Sigurjónssonar, miðjumanns Breiðabliks.

Blikar unnu sinn fyrsta og eina bikarúrslitaleik árið 2009 undir stjórn Ólafs Kristjánssonar en Stjarnan hefur tvívegis farið í úrslit og tapað í bæði skiptin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×