Viðskipti innlent

Seðlabankinn seldi erlendan gjaldeyri fyrir 1,2 milljarða króna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Seðlabankinn keypti krónur á þriðjudaginn.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Seðlabankinn keypti krónur á þriðjudaginn. VÍSIR/ANTON BRINK
Í inngripi Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði á þriðjudag fólust sala á erlendum gjaldeyri fyrir um 1,2 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í hagtölum sem Seðlabankinn birti á vef sínum í gær.

Vísir fjallaði um inngripið á þriðjudaginn en þá sagði Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans, að bankinn hefði beitt inngripum á markaði í samræmi við yfirlýsingu peningastefnunefndar. Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Stefán Jóhann að ákveðin hreyfing á markaði hefði átt sér stað og Seðlabankinn hefði spornað við henni.

Krónan hafði fallið hvern einasta dag í september þangað til í gær þegar hún styrktist lítillega gagnvart evrunni. Aðalhagfræðingur Íslandsbanka tjáði Vísi að erfiðir dagar krónunnar væru mögulega vegna vandræða flugfélagsins WOW Air.

Seðlabankinn gerði síðast gjaldeyrisviðskipti í nóvember í fyrra þegar bankinn keypti erlendan gjaldmiðil fyrir 362 milljónir íslenskra króna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×