Viðskipti innlent

Gengið styrkist og Icelandair fellur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ætla má að vendingarnar í Kauphöllinni tengist fregnum af skuldafjárútboði WOW Air.
Ætla má að vendingarnar í Kauphöllinni tengist fregnum af skuldafjárútboði WOW Air. Fréttablaðið/Stefán
Íslenska krónan hefur styrkst umtalsvert gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum í dag. Til að mynda hefur styrking krónunnar gagnvart Bandaríkjadal numið um 1,5 prósentum það sem af er degi, og rúmum 2 prósentum gagnvart sænsku krónunni.

Þá hefur dagurinn verið nokkuð grænn í Kauphöllinni, að frátaldri lækkun á hlutabréfaverði í Icelandair. Í hádeginu hafði verð í bréfum félagsins fallið um næstum 4 prósent. Eftir hækkun í upphafi vikunnar hafa bréf í Icelandair fallið tvo daga í röð og nemur heilsárslækkunin nú rúmum 50 prósentum.

Sjá einnig: Segir erfiða daga krónunnar mögulega vegna WOW Air

Ætla má að þessi þróun, gengisstyrking krónunnar og lækkun Icelandair, sé beintengd fregnum af skuldabréfaútboði WOW Air. Meðfram mikilli svartsýni í garð útboðsins í upphafi vikunnar lækkaði gengi íslensku krónunnar. WOW Air flytur um þriðjung ferðamanna til landsins, með meðfylgjandi gjaldeyri, og óttinn við fall flugfélagsins kann þannig að hafa haft áhrif á framtíðarhorfur krónunnar. Á sama tíma hækkaði hlutabréfaverð í Icelandair, enda myndi brotthvarf WOW Air óneitanlega minnka samkeppnina á íslenskum flugmarkaði.

Eftir því sem frekari fregnir berast af skuldafjárútboðinu, eins og til að mynda frétt Fréttablaðsins í morgun um að WOW air sé á lokametrunum með að sækja sér nægjanlegt fjármagn, hefur þessi þróun snúist við. Gengi krónunnar hefur styrkst tvo daga í röð og gengi Icelandair fallið samhliða. Örla fór á þessari þróun strax á miðvikudag. Þá hækkuðu bréf í Icelandair fyrir hádegi en síðan gekk hækkunin til alveg til baka fyrir lokun markaða.

Búist er við formlegri yfirlýsingu frá WOW Air vegna skuldafjárútboðsins í lok vikunnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×