Innlent

Hildur vill að vinnustaðamenning Orkuveitunnar verði skoðuð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hildur Björnsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún sést hér með kollegum sínum, Mörtu Guðjónsdóttur og Eyþóri Arnalds.
Hildur Björnsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún sést hér með kollegum sínum, Mörtu Guðjónsdóttur og Eyþóri Arnalds. fréttablaðið/sigtryggur ari
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir fjölmörgum spurningum enn ósvarað í málum Orkuveitu Reykjavíkur. Hún segir rétt að vinnustaðamenning Orkuveitunnar verði skoðuð og þá sé málið litið alvarlegum augum. Hildur greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í dag.

Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, var sagt upp störfum á miðvikudag en ástæðan er sögð vera óviðeigandi hegðun og framkoma í garð kvenkyns starfsmanna. Bjarni hefur þegar látið af störfum.

Sjá einnig: Viðurkennir mistök en segist ekki vera dónakall

Hildur situr í stjórn Orkuveitunnar og segist því hafa fengist við „þau erfiðu mál innan samstæðunnar sem ratað hafa í fjölmiðla“ undanfarna daga. Vísar Hildur þar til brottvikningar Bjarna Más úr starfi og ásakanir starfsmanna á hendur honum.

„Sú framkoma og sá kúltúr sem lýst hefur verið á ekki að líðast nokkurs staðar í samfélaginu. Mér þykir rétt að árétta að fjölmörgum spurningum er enn ósvarað og málinu því ekki lokið,“ skrifar Hildur.

Hún setur málið í samhengi við byltingu í frásögnum af kynferðisofbeldi undanfarna mánuði og leggur til að vinnustaðamenning Orkuveitu Reykjavíkur verði skoðuð í ljósi áðurnefndra atburða.

„Alþjóðleg bylgja frásagna af kyn­ferð­is­legri áreitni og ofbeldi síðustu misseri hefur leitt í ljós alvarlega brotahegðun á fjölmörgum vinnustöðum sem verður að uppræta. Málið sem hér um ræðir er af sama meiði og er litið alvarlegum augum. Í framhaldinu þykir mér rétt að vinnustaðamenning samstæðunnar verði skoðuð svo sambærileg hegðun geti ekki endurtekið sig.“

 

Boðað var til aukafundar hjá stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í dag vegna málsins. Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, sagði í dag að hún teldi að stjórn Orku Náttúrunnar hafi brugðist við á viðeigandi hátt í máli Bjarna Más.


Tengdar fréttir

Viðurkennir mistök en segist ekki vera dónakall

Bjarni Már Júlíusson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, segist mjög sleginn yfir þeirri atburðarás sem leitt hafi til starfsloka hans hjá fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×