Lífið

Saga til næsta bæjar: Er árið 1721 núna?

Stefán Pálsson skrifar
Karlamagnús eða Karl mikli. Var stríðskonungurinn hreinn uppspuni?
Karlamagnús eða Karl mikli. Var stríðskonungurinn hreinn uppspuni?
Bókin um daginn þegar sólin stóð kyrr“ var auglýsingaslagorðið sem útgefandinn Macmillan Press notaði á vordögum árið 1950 um glænýtt vísindarit. Verkið nefndist Worlds in Collision eftir rússneska höfundinn Immanuel Velikovsky. Bókin skaust á topp metsölulistans og vakti gríðarlegt umtal og athygli.

Ekki var við öðru að búast, enda setti höfundurinn fram æsilegar kenningar í verki sínu, bæði á sviði stjörnufræði og mannkynssögu. Velikovsky áleit að reikistjarnan Venus væri kornung og hefði brotnað frá Júpíter fyrir aðeins fáeinum árþúsundum. Um 1.500 fyrir Krist hefði plánetan svo farið fram hjá Jörðinni á leiðinni á núverandi sporbraut sína og hefði sá fundur haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér – þannig hefði snúningur Jarðar stöðvast um tíma og það leitt til skelfilegra náttúruhamfara. Þessir tilflutningar himintunglanna hefðu haft afleiðingar á Jörðinni næstu tvö þúsund árin eða svo áður en ró komst á og núverandi skipan reikistjarna festist í sessi.

Með þessari byltingarkenndu tilgátu, taldi Velikovsky sig geta skýrt ýmis atriði sem þóttu sérkennileg varðandi Venus, en einnig mætti með þessu varpa nýju ljósi á sögu mannsins. Heimildir um hamfarirnar miklu mætti finna í fjölda fornra menningarsamfélaga og þær hafi lifað áfram í goðsögum og endursögnum mann fram af manni.

Skemmst er frá því að segja að stjörnufræðiheimurinn hafnaði kenningum Velikovskys algjörlega. Hann var sakaður um að misskilja og rangtúlka rannsóknir stjarnvísindamanna. Engin ástæða væri til að ætla að Venus sé kornung pláneta, auk þess sem atburðarás sú sem lýst er í bókinni hefði aldrei gengið upp af fjölmörgum ástæðum. Var bókaforlagið harðlega gagnrýnt fyrir að gefa slíkar dellukenningar út eins og um alvöru vísindarit væri að ræða og gefa hugmyndunum þannig lögmæti í hugum fólks.

Svo fór líka að margir urðu til að leggja trúnað á hina frumlegu kenningu Rússans, þótt sérfræðingar skelltu skollaeyrum við henni. Tilgátur af þessu tagi, sem svipta grundvellinum undan hefðbundnum skilningi fólks á fortíðinni, hafa löngum átt greiða leið að eyrum fjölda fólks. Má í því samhengi minnast feykilegra vinsælda afar fjarstæðukenndra hugmynda Svisslendingsins Erichs von Däniken um að helstu menningarsamfélög fornaldar hafi verið sköpuð af geimverum. Áhrifa frá Velikovsky gætir enn í dag, með óbeinum hætti þó. Má þar nefna einhverja sérkennilegustu sagnfræðitilgátu seinni ára: hugmyndina um upplognu árin 297 í mannkynssögunni!

Almanakið véfengt

Maður er nefndur Heribert Illig. Hann er Þjóðverji, fæddur árið 1947 og lagði stund á fjölda ólíkra greina á sviði hug- og félagsvísinda í háskóla. Einkum var hann áhugasamur um sögu og menningu Egyptalands hins forna og það var á þeim vettvangi sem hann kynntist kenningum Velik­ovskys.

Ein forsenda þess að tilgáta þess rússneska gengi upp var sú að forsögulegar frásagnir af stórkostlegum náttúruhamförum frá ólíkum menningarsamfélögum væru allar frá sama tíma. Í sumum tilvikum var auðvelt að hnika atburðum fram og aftur í sögunni, svo sem þegar kom að frásögnum Gamla testamentisins af syndaflóðinu, grískum arfsögnum um eyðingu Atlantis og öðrum viðlíka atvikum. Málið vandaðist nokkuð þegar kom að samfélögum með lengri skrásetta sögu – og þá sérstaklega Egyptalandi.

Velikovsky greip til þess ráðs að hafna viðteknum hugmyndum um egypska sögu og tímarás atburða. Til að kenningar hans gengju upp, hlutu nákvæmar kóngaraðir með ártölum sem náðu óralangt aftur í tímann að vera uppspuni og tilbúningur. Hinn ungi Illig sökkti sér ofan í þessi fræði og varð furðulostinn yfir því hvað margt í tímatalsútreikningum um sögu Egypta virtist standa á veikum fótum. Sáralitlar heimildir var að finna um mörg hundruð ára tímabil, þar sem treysta þurfti orðum örfárra sagnaritara. Niðurstaða hans varð sú að þegar kæmi að skilningi á fortíðinni værum við ofurseld frásögnum fáeinna manna sem hæglega gætu falsað söguna sjálfum sér í hag.

Illig freistaði þess að umrita sögu Egyptalands með því að endurskoða viðtekna tímaása. Skrif hans um þessi efni vöktu nokkra athygli en sannfærðu fáa. Hins vegar urðu þau til þess að koma honum í samband við aðra fræðimenn og sagnfræði­grúskara sem rannsökuðu tímatal í leit að villum eða samsæri.

Um miðjan níunda áratuginn hóf Illig að kynna sér falsanir á miðaldaskjölum, en vísbendingar virtust um að fjöldi slíkra skjala væri miklu eldri en atburðirnir sem þau áttu að lýsa. Ef þær tilgátur reyndust réttar var eitthvað verulega skrítið á seyði. Hvernig gátu skrifarar miðalda sagt svo nákvæmlega fyrir um óorðna atburði og hvaða tilgangur gat verið í því að falsa skjöl sem ekki kæmu að gagni fyrr en mörgum öldum síðar?

Þótt Illig væri fráleitt neinn sérfræðingur um evrópska miðaldasögu, sannfærðist hann skjótt um að fiskur lægi undir steini. Á sama hátt og tímaás fornegypskrar sögu væri seinni tíma tilbúningur, tók hann að gruna að krukkað hefði verið í tímatal miðaldamanna. Ef til vill væri saga Evrópu öllu styttri en flestir teldu?

Illig hóf að leita að vísbendingum um stórkostlegasta samsæri allra tíma og fljótlega virtust þær koma í ljós ein af annarri. Árið 1582 hafði gregoríanska dagatalið tekið gildi í stað eldra dagatals sem kennt var við Júlíus Sesar. Við þá breytingu var tíu dögum sleppt úr almanakinu til að leiðrétta skekkju miðað við gang sólar. Samkvæmt útreikningum Illigs hefðu dagarnir þó þurft að vera fimmtán, sem væri skýr vísbending um að maðkar væru í mysunni.

Langstærsta samsærið

Eftir því sem Illig kynnti sér betur sögu miðalda, þeim mun augljósara fannst honum misræmið milli þess hversu ríkar heimildir og fornminjar mætti finna frá fornöldinni annars vegar og tímabilinu eftir árið 1000 hins vegar samanborið við fyrri hluta miðalda. Lengi hafði verið talað um hinar „myrku miðaldir“ sem langt tímabil stöðnunar og lít- illa framfara á sviði lista og vís- inda. Ýmsir höfðu reynt að skýra hvernig á þessu viðburðasnauða skeiði stæði, en nú taldi Illig sig hafa fundið svarið: miðaldir hefðu í raun verið miklu styttri en talið væri. Árin 614 til 911 hefðu aldrei átt sér stað!

Samkvæmt kenningunni höfðu páfinn í Róm, keisari hins heilaga rómverska ríkis og páfi austrómversku kikjunnar í Býsans gert með sér samsæri seint á sjöundu öld um að breyta almanakinu og færa það fram um nærri 300 ár. Það hafi í raun ekki verið eins flókið og ætla mætti, þar sem nær allir menntamenn þeirrar tíðar hafi verið í þjónustu þeirra. Allir munkar og aðrir kirkjunnar þjónar hafi fengið fyrirmæli um að láta eins og 297 ár hefðu liðið í raun og veru og taka mið af því í öllum sínum skrifum.

En hver væri ávinningurinn með slíku samsæri? Jú, frá upphafi höfðu Kristnir menn beðið endurkomu Krists og dómsdags í kjölfarið. Þau ragnarök höfðu látið eftir sér bíða, en ýmsir bundu vonir við að til tíðinda drægi á þúsund ára afmæli Jesú. Til marks um þá trú má nefna að talsverður kippur hljóp í kristniboð þegar líða tók að árinu 1000, eins og kristnitaka á Íslandi og í Rússlandi eru til marks um. Tilgáta Illigs er því sú að kirkjuhöfðingjarnir hafi viljað tryggja að þeir yrðu á valdastóli þegar hið örlagaríka ár 1000 rynni í garð.

Það að bæta þremur öldum við mannkynssöguna fól einnig í sér margháttuð tækifæri fyrir valdhafa, sem gætu þar með spunnið í eyðurnar að eigin hentugleika. Og þar komum við einmitt að hinu aðal­atriðinu í kenningunni: tilvist Karlamagnúsar, fyrsta keisara hins heilaga rómverska ríkis.

Illig leit svo á að frá því um 614 til valdatöku Karlamagnúsar árið 768 ríkti nær ærandi þögn í sögunni. Þá tæki við nærri hálfrar aldar tímabil stórtíðinda allt til dauða keisarans og því næst væri hálfgerð ördeyða næstu öldina. Samkvæmt samsæriskenningunni væri þetta afskaplega ósennileg framvinda. Sögurnar af Karlamagnúsi væru svo stórkostlegar og lýstu slíkum afrekum að þær hlytu að vera upplognar með það að markmiði að styrkja valdakröfur hinna meintu afkomenda stríðshöfðingjans.

Áhugavert er að sjá hvernig Illig túlkaði skort á heimildum og ofgnótt þeirra jöfnum höndum sem rök fyrir tilgátum sínum. Er það raunar almennt einkenni á höfundum samsæriskenninga.

Gloppurnar í kenningunni um almanakssamsærið mikla eru margar og stórar. Þannig hefur verið bent á að tilgátan haldi varla vatni þótt aðeins sé horft til sögu Vestur-Evrópu, líkt og Illig gerði að mestu. Séu önnur svæði tekin með í reikninginn komi enn betur í ljós hversu fráleitt sé að tala um þriggja alda eyðu í mannkynssögunni.

Sagnfræðingar hafa almennt ekki talið hugmyndina svaraverða og líta frekar á hana sem tilbúning ætlaða fyrir æsifréttablöð en alvöru innlegg í fræðilega umræðu. Sjálfur telur Illig þetta afskiptaleysi þó bara sönnun þess að sérfræðingarnir treysti sér ekki til að hrekja rök hans og staðfestingu á ágæti tilgátunnar. Það er nánast ómögulegt að kveða niður góða samsæriskenningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×