Innlent

Forseti sveitarstjórnar stígur til hliðar

Jóhann K. Jóhannsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Frá Húsavík, þar sem Örlygur Hnefill rekur Hótel Cape.
Frá Húsavík, þar sem Örlygur Hnefill rekur Hótel Cape. Vísir/GVA

Örlygur Hnefill Örlygsson, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, ætlar að stíga til hliðar á sveitarstjórnarfundi sveitarfélagsins á þriðjudag og óskar leyfis í kjölfar samskipta sem hann átti við starfsmann sveitarfélagsins fyrr í sumar. Þetta staðfesti Örlygur í samtali við fréttastofu í kvöld og segist hafa farið fram úr sjálfum sér í samtali við starfsmanninn.

Samskiptin átti Örlygur við framkvæmdaraðila sveitarfélagsins og tengjast þau jarðvegsvinnu í kringum Hótel Cape sem Örlygur á og rekur á Húsavík.

Örlygur Hnefill Örlygsson.

Fyrr í sumar sumar hófst malbikunarvinna í kringum hótelið sem hefur að sögn Örlygs Hnefils dregist úr hófi fram bæði í tíma og fjármunum. Þá er framkvæmdunum enn ekki lokið. Örlygur Hnefill segir í samtali við fréttastofu að gestir hótelsins hafi orðið fyrir töluverðu ónæði vegna framkvæmdanna.

Þá hafi samskipti Örlygs Hnefils við umræddan framvæmdafulltrúa átt sér stað fyrir um mánuði síðan. Örlygur Hnefill segir að hann hafi strax áttað sig á því að hann hafi farið fram úr sér í samskiptum við starfsmanninn og sér eftir viðbrögðum sínum.

Örlygur Hnefill hefur gegnt stöðu forseta sveitarstjórnar Norðurþings fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan árið 2017. Þar áður hafði hann setið í sveitarstjórn Norðurþings frá árinu 2014.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×