Erlent

Meintir tilræðismenn sagðir tengjast rússneska varnarmálaráðuneytinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Varnarmálaráðuneytið í Moskvu.
Varnarmálaráðuneytið í Moskvu. Vísir/Getty
Mennirnir tveir sem bresk stjórnvöld saka um að hafa reynt að ráða rússneskan fyrrverandi njósnari af dögum í mars hafa bein tengsl við rússneska varnarmálaráðuneytið. Þetta kemur fram í gögnum um mennina sem rannsóknarblaðamenn grófu upp.

Vefsíðurnar Bellingcat, sem hefur rannsakað átökin í Sýrlandi, og The Insider, vefsíða rússneskra rannsóknarblaðamanna, birtu skjöl sem varða mennina tvo og ferð þeirra til Salisbury á Englandi. Þar eru þeir sakaðir um að hafa eitrað fyrir Sergei Skrípal, fyrrverandi njósnara, og dóttur hans Júlíu. Bresk stjórnvöld segja þá starfa fyrir rússnesku herleyniþjónustuna GRU.

Á meðal gagna sem vörðuðu vegabréfsupplýsingar annars þeirra var símanúmer. Þegar breska blaðið The Observer hringdi í númerið var svarað á skiptiborði í varnarmálaráðuneyti Rússlands. Það vildi ekki ræða við blaðamenn eða veita neinar upplýsingar.

Skjölin grafa einnig undan fullyrðingum mannanna í sjónvarpsviðtali í vikunni um að þeir hafi skipulagt ferðina til Englands fyrir löngu. Í þeim kemur fram að þeir hafi bókað flug með rússneska félaginu Aeroflot á síðustu stundu.

Bresk stjórnvöld telja að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafi gefið skipun um tilræðið gegn Skrípal. Scotland Yard telur að nöfn mannanna tveggja sem bresk stjórnvöld hafa birt séu dulnefni. Rússneska ríkisstjórnin reyni að hylma yfir hverjir þeir eru raunverulega.


Tengdar fréttir

Segir Rússana vera útsendara GRU

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir tvo rússneska aðila sem sakaðir eru um að hafa eitrað fyrir Sergei Skripal og dóttur hans Júlíu með taugaeitrinu Novichok í mars vera starfsmenn leyniþjónustu herafla Rússlands,




Fleiri fréttir

Sjá meira


×