Íslenski boltinn

Haraldur: Gleymdi að skoða vítaspyrnurnar þeirra

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stjörnumenn í stúkunni í kvöld.
Stjörnumenn í stúkunni í kvöld. vísir/daníel
Haraldur Björnsson markmaður Stjörnunnar var eins og við mátti búast ánægður eftir sigur gegn Breiðablik í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í kvöld. Haraldur varði eina spyrnu Blika í vítaspyrnukeppninni.

„Ég hef einu sinni farið í vítaspyrnukeppni áður í svona leik, ég held bara aldrei í svona stórum leik. Maður var bara að taka því eins og það gerðist. Þetta var skrítið fyrirkomulag þetta ABBA, fá tvær spyrnur í röð. Við börðumst eins og ljón. Það voru erfiðar aðstæður, smá rigning og vindur en bara geggjað, algjörlega geggjað.”

Haraldur átti stóran þátt í sigri Garðbæingana, hann átti nokkrar frábærar vörslur í

venjulegum leiktíma. Mikilvægasta sem hann gerði í leiknum var þó eflaust þegar hann varði frá Arnóri Gauta Ragnarssyni framherja Breiðabliks í vítaspyrnukeppninni.

Varstu búinn að undirbúa þig sérstaklega fyrir vítaspyrnur?

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá gleymdi ég að skoða vítaspyrnukeppnina þeirra á móti Ólafsvík. Fjalar (Þorgeirsson, markmannsþjálfari Stjörnunnar) skrifaði það á flöskuna mína og það eiginlega skóp það. Ég vissi hvar svona þeir myndu fara og það hjálpaði mikið til,” sagði Haraldur aðspurður hvort hann hafi undirbúið sig eitthvað sérstaklega fyrir vítaspyrnukeppni.

Stuðningsmennirnir hérna uppi í stúku gjörsamlega frábærir, hvernig verður fagnað  Garðabænum í kvöld?

„Ég veit það ekki, kannski einn kaldur þar sem við eigum mjög mikilvægan leik á miðvikudaginn og við verðum náttúrulega að undirbúa okkur fyrir það, við erum baráttu um Íslandsmeistaratitilinn þannig að það gerist ekki betra”

Stjarnan á leik gegn KA í Garðabænum á miðvikudaginn en Stjarnan situr í öðru sæti Pepsi-deildarinnar með 39 stig, einu stig á eftir Val. Einungis þrír leikir eru eftir af tímabilinu og því skiptir hver einasti leikur gríðarlega miklu máli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×