Lífið

Snjósleðar og trampólín þegar Eiður Smári fagnaði fertugsafmælinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen með Meistaradeildarbikarinn, eitt af fjölmörgum afrekum hans á glæstum fótboltaferli.
Eiður Smári Guðjohnsen með Meistaradeildarbikarinn, eitt af fjölmörgum afrekum hans á glæstum fótboltaferli. Vísir/AFP
Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður karlalandsliðsins í knattspyrnu frá upphafi, fagnaði fjórum tugum í gær. Afmælisdaginn bar upp á laugardag svo það var tilefni til að blása til veislu. Stærstu félagslið í heimi sendu kveðju á kappann ásamt tugþúsundum aðdáanda um heim allan.

Meðal þeirra sem tóku daginn frá og skemmtu sér með Eiði Smára voru landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi Birkir Kristinsson, Auðunn Blöndal og Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi. Skellti hópurinn sér í snjósleðaferð á Langjökul og komu við á vel völdum stað á bakaleiðinni til að hoppa á trampólíni. 

Ingólfur Þórarinsson veðurguð var sömuleiðis í afmælinu og tók besta vin sinn gítarinn með. Var sungið og góð stemmning. „Allt er fertugum fært,“ sagði Sveppi við vin sinn Eið Smára á ferðalaginu um Suðurlandið. Ólafur Ingi Skúlason landsliðsmaður heiðraði vin sinn í afmælinu og Ragga Gísla, söngkona og eiginkona Birkis, færði Eiði Smára bol sem á stóð „I make 40 look good.“

Um kvöldið var svo farið út að borða þar sem sungið var fyrir afmælisbarnið sem hefur starfað sem sérfræðingur í sjónvarpi eftir að knattspyrnuferlinum lauk. Var hann meðal annars hluti af útsendingu Stöðvar 2 frá landsleikjum Íslands gegn Sviss og Belgíu á dögunum.

Að neðan má sjá kveðjur sem rigndi yfir afmælisbarnið í gær.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×