Erlent

Launahækkanir Maduro valda verslunum erfiðleikum

Andri Eysteinsson skrifar
Verslanir hafa átt í erfiðleikum með að fylla hillur sínar. Nú vegna mikilla launahækkana neyðast þær margar hverjar til að hætta.
Verslanir hafa átt í erfiðleikum með að fylla hillur sínar. Nú vegna mikilla launahækkana neyðast þær margar hverjar til að hætta. Vísir/EPA
Stór hluti verslana í Suður-Ameríku ríkinu Venesúela hafa á undanförnum tveimur vikum lokað vegna hækkunar lægstu launa sem fyrirskipuð var af Nicolás Maduro, forseta, og ríkisstjórn hans.

Miklir fjárhagslegir erfiðleikar hafa herjað á Venesúela undanfarin ár, forsetinn Nicolás Maduro hefur verið gagnrýndur fyrir stefnur sínar og aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Síðasta útspil stjórnarinnar og Maduro hefur dregið dilk á eftir sér. Maduro fyrirskipaði í ágúst um hækkun lægstu launa um næstum 3500 % í einum rykk. Þetta hefur haft það í för með sér að samkvæmt viðskiptaráði Venesúela hafa um 40% verslana í landinu lagt upp laupana. Miami Herald greinir frá.

Verslun hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið vegna hríðversnandi efnahagsástands í landinu en síðustu aðgerðir hafa veitt mörgum banahöggið.

María Uzcátegui forseti viðskiptaráðsins segir að verslunareigendum hafi verið gert það óheimilt að hækka verð til að koma á móti launahækkunum starfsfólks. Hækki verslunarmenn verð eigi þeir á hættu að vera fangelsaðir.

Því neyðast verslanir til að borga starfsfólki hærri laun á sama tíma og þær neyðast til að selja vörur á mánaðargömlu verði sem nú er komið undir kostnaðarverð. Uzcategui segir að vegna verðbólgunnar í landinu sé vart hægt að selja vörur á sama verði tvo daga í röð.

Hagfræðingurinn Orlando Ochoa sagði við Miami Herald að búðirnar ráði ekki við launahækkanir enda hafi þær nú þegar verið í vandræðum vegna erfiðleika við innkaup frá erlendum birgjum og geta því vart fyllt hillur verslana.


Tengdar fréttir

Bandarísk stjórnvöld ræddu valdarán við yfirmenn venesúelska hersins

Ríkistjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur á síðasta árinu verið í samskiptum við háttsetta aðila innan vensúelska hersins varðandi mögulega tilraun til þess að steypa forseta Venesúela, Nicolás Maduro, af stóli. Þetta hefur New York Times eftir starfsmönnum innan ríkisstjórnar Bandaríkjanna og fyrrverandi yfirmanni innan venesúelska hersins í ítarlegri skýrslu um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×