Innlent

Fjórði hver lögreglumaður finnur ekki til öryggis

Sveinn Arnarsson skrifar
Lögreglumenn við umferðargæsla
Lögreglumenn við umferðargæsla
Einn af hverjum fjórum lögreglumönnum telur sig ekki vera öruggan í starfi. Þetta kemur fram í ársskýrslu dómsmálaráðherra. Snorri Magnússon, formaður Félags lögreglumanna, segir félagið hafa margoft bent á lausnir til að auka öryggi lögreglumanna.

Markmið dómsmálaráðuneytisins er að níu af hverjum tíu lögreglumönnum telji sig örugga við skyldustörf. Niðurstaða skoðunar í fyrra sýni það hins vegar að aðeins 74 prósent lögreglumanna telji sig vera örugg í starfi. „Þetta er eitthvað sem þarf að bæta og hangir saman við það sem við höfum margoft sagt. Það þarf að fjölga lögreglumönnum. Við teljum það vera meginskýringuna á þessu,“ segir Snorri.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri segist margoft hafa, bæði í ræðu og riti, gert stjórnvöldum grein fyrir því að þetta sé meginþáttur í að auka öryggi lögreglumanna. „Það er morgunljóst að öryggi er ekki mikið þegar þú þarft kannski að bíða klukkustundum saman eftir aðstoð. Það getur svo sannarlega gerst í dreifðum byggðum landsins. Það er vinnuumhverfi sem er afar erfitt fyrir lögreglumenn,“ bætir Snorri við.

Árið 2012 kannaði lögreglan sjálf öryggi starfsmanna sinna og segir Snorri að svipaðar tölur hafi komið út úr þeirri rannsókn. „Það hefur lítið breyst í þessum efnum enda hefur mönnun lögreglunnar ekkert skánað á öllum þessum tíma. Hins vegar hefur verkefnum okkar fjölgað svo um munar á sama tíma. Við höfum talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda lengi og virðist engu skipta hverjir eru við stjórnvölinn í þeim efnum,“ segir formaður Landssambands lögreglumanna að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×