Enski boltinn

Maurizio Sarri: Hazard getur skorað 40 mörk á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard fagnar einu marka sinna um helgina.
Eden Hazard fagnar einu marka sinna um helgina. Vísir/Getty
Eden Hazard var mikið orðaður við Real Madrid í sumar en ekkert varð úr því að Belginn færi þangað. Nýr knattspyrnustjóri Chelsea hefur síðan heldur betur náð að kveikja í honum í upphafi tímabils og allt er í blóma hjá Hazard á Stamford Bridge.

Eden Hazard skoraði þrennu í 4-1 sigri á Cardiff um helgina og hefur skorað fimm mörk í þeim þremur leikjum sem hann hefur byrjað í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur líka tröllatrú á sínum manni og það er ljóst að nýr leikstíll Chelsea undir stjórn Sarri hentar Hazard einstaklega vel.





„Við höfum talað saman og ég sagði honum að hann gæti skorað 40 mörk á tímabilinu. Hann þarf að bæta suma hluti en hann getur það alveg,“ sagði Maurizio Sarri.

Maurizio Sarri er líka á því að Eden Hazard geti orðið besti knattspyrnumaðurinn í Evrópu.

Hazard kom til Chelsea árið 2012 og hefur nú skorað 94 mörk fyrir félagið. Hann hefur aftur á móti aldrei náð að skora tuttugu mörk á einu tímabili. Persónulega metið hans er 19 mörk tímabilið 2014-15 en undanfarin tvö tímabil hefur hann skorað sautján mörk.

Mohamed Salah hjá Liverpool vann gullskóinn í fyrra þegar hann skoraði 32 mörk í deildinni og 44 mörk í öllum keppnum.





Með þessum fimm mörkum er Eden Hazard orðinn markahæstur í ensku úrvalsdeildinni. Hann er með marki meira en þeir Romelu Lukaku (Manchester United), Sadio Mane (Liverpool) og Aleksandar Mitrovic (Fulham).

Chelsea er á toppnum með fullt hús og aðeins betri markatölu en Liverpool sem hefur líka unnið alla fimm leiki sína.

„Við þurfum að bæta okkar leik skref fyrir skref. Mitt markmið er að verða besta liðið á Englandi eftir átján mánuði. Það er markmiðið,“ sagði Maurizio Sarri.

„Að mínu mati eru bæði Liverpool og Manchester City með betri lið en við á þessum tímapunktu,“ sagði Sarri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×