Innlent

Borgin Wilmington einangruð vegna Flórens

Atli Ísleifsson skrifar
Vegirnir til og frá Wilmington eru ófærir.
Vegirnir til og frá Wilmington eru ófærir. Vísir/EPA
Gríðarmikil flóð vegna fellibylsins Flórens hafa orðið til þess að allir vegir til og frá Wilmington í Norður-Karólínu eru nú ófærir. Yfirvöld í ríkinu búa sig nú undir að þurfa að koma matvælum og hreinu vatni til 120 þúsund íbúa borgarinnar flugleiðina.

Þó að verulega hafi dregið úr krafti Flórens ógna flóð og úrkoma enn íbúum víða á austurströnd Bandaríkjanna. Hætta er á að íbúar verði uppiskoppa með mat og vatn og hafa langar biðraðir myndast fyrir utan matvöruverslanir í Wilmington. Þannig þurfti að fá aðstoð lögreglu þar sem fólk fjölmennti í verslanir til að hamstra mat.

„Vegir okkar eru á kafi. Það er engin leið að komast til Wilmington,“ segir Woody White, talsmaður yfirvalda í borginni.

Stór hverfi í borginni eru auk þess án rafmagns og þá hafa starfsmenn yfirvalda þurft að bjarga alls um fjögur hundruð manns vegna flóðanna.

Að minnsta kosti fimmtán manns hafa látið lífið vegna Flórens í Norður- og Suður-Karólínu frá því að fellibylurinn gekk á land síðastliðinn fimmtudag.


Tengdar fréttir

Sjö látnir vegna Flórens

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að neyðarástand ríki í Norður Karólínuríki vegna hitabeltisstormsins Flórens sem gengur þar yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×