Innlent

Forstjóri OR stígur tímabundið til hliðar

Birgir Olgeirsson skrifar
Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Vísir/Stefán
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hefur óskað eftir því við formann stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að stíga tímabundið til hliðar. Bjarni segir í tilkynningunni að hann hafi óskað eftir því á meðan þau mál sem komið hafa upp verða skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðamenningu fyrirtækisins. 

Segir Bjarni að hann telji mikilvægt, bæði í þágu starfsmanna og almennings, að sú skoðun fari fram. 

„Þar mega mínar ákvarðarnir ekki vera undanskildar,“ skrifar Bjarni. 

Málið má rekja til uppsagnar Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, sem var forstöðumaður einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúru. Einar Bárðarson, eiginmaður hennar, sagði frá því að hann hefði átt fund með forstjóra stórfyrirtækis og greint honum frá óviðeigandi og dónalegri framgöngu framkvæmdastjóra hans.

Einar segir að forstjórinn, sem seinna kom í ljós að var Bjarni Bjarnason forstjóri OR hafi gefið lítið fyrir þetta. En, Bjarni kallaði engu að síður saman stjórn ON, en ON er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur og í kjölfarið var framkvæmdastjórinn, Bjarni Már Júlíusson rekinn.

Bjarni Bjarnason sagði í samtali við Vísi í síðustu viku að hann hefði ekki haft sömu upplifun af fundinum og Einar. Bjarni sagðist hafa litið málið mjög alvarlegum augum og að hann hefði ekki vitað af þessum málum sem vörðuðu framkvæmdastjóra ON. Áslaug fullyrti í dag að forstjórinn hefði verið fullmeðvitaður um þessi mál og lýsti yfir furðu sinni að hann hefði notið stuðnings stjórnarformanns OR.

Eftirfarandi er tilkynning frá forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur:

Ég hef óskað eftir því við formann stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan þau mál sem komið hafa upp verða skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins. Ég tel afar mikilvægt bæði í þágu starfsmanna og almennings að sú skoðun fari fram. Þar mega mínar ákvarðanir ekki vera undanskildar.

Því tel ég rétt að víkja tímabundið á meðan málið er skoðað.

Starfsfólk OR hefur lagt mikið á sig á síðustu árum við að byggja fyrirtækið upp á ný úr krappri stöðu. Sú vinna hefur ekki síst snúið að auknu jafnrétti kynjanna og bættri vinnustaðarmenningu. Áríðandi er að halda þeirri mikilvægu vinnu áfram.

Fréttin er í vinnslu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×