Íslenski boltinn

Þorsteinn: Ungar og góðar er okkar slagorð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þorsteinn er að gera góða hluti í Kópavogi.
Þorsteinn er að gera góða hluti í Kópavogi. vísir/eyþór
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks, segist vera með ungt en gott lið í höndunum - ekki ungt og efnilegt.

Breiðablik tryggði sér sigurinn í Pepsi-deildinni með 3-1 sigri á Selfyssingum á heimavelli í kvöld. Liðið er tvöfaldur meistari, þvílíkt tímabil.

„Þetta er frábær stund. Draumatímabil,” sagði Þorsteinn sigurreifur í leikslok.

„Við ætluðum alltaf að vinna þennan titil. Það er ekkert launungarmál. Ég sagði við stjórnina þrem dögum fyrir fyrsta leik að einu markmiðin væri að vinna báða titlana.”

„Auðvitað setur maður sér stundum markmið og þau ganga ekki alveg upp en það er frábært að sjá þau ganga upp eins og gerist núna.”

„Við vissum að eftir því sem leið á mótið að við værum að spila vel og það væri stígandi í þessu. Eftir fyrsta leikinn gegn Stjörnunni fannst mér liðið stækka við það.”

„Liðið spilaði heilt yfir, alltaf betur og betur, en það kom smá bakslag á Akureyri. Við gerðum þó aldrei ráð fyrir því að taplaus í gegnum mótið.”

„Við undirbjuggum okkur fyrir það að við gætum lent í skakkaföllum. Þess vegna var ég ánægður með viðbrögðin eftir þann leik að við héldum bara áfram og spiluðum vel.”

Hann segir að liðið hafi tekið eftir umræðunni fyrir mótið að liðið væri með ungt lið en hann var með skoðun á þeirri umræði.

„Við vissum um umræðuna að við værum með ungt og óreynt lið. Okkar slagorð er einfalt; ungar og góðar,” sagði Þorsteinn hress að lokum.


Tengdar fréttir

Sonný Lára: Við erum bara rétt að byrja

Sonny Lára Þráinsdóttir, fyrirliði Breiðabliks, segir að Breiðablik sé rétt að byrja í því að vinna titla og segir að rigningin í síðari hálfleik hafi skilað sínu.

Breiðablik Íslandsmeistari í sautjánda sinn

Breiðablik er Íslandsmeistari í kvennaflokki í sautjánda sinn en liðið tryggði sér í kvöld sigurinn í Pepsi-deild kvenna með 3-1 sigur á Selfyssingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×