Erlent

Assad-liðar skutu niður rússneska flugvél fyrir mistök

Samúel Karl Ólason skrifar
F-16 herþota ísraelska hersins tekur á loft.
F-16 herþota ísraelska hersins tekur á loft. Vísir/Getty
Yfirvöld Rússlands kenna Ísrael um að stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, hafi skotið rússneska flugvél niður yfir Miðjarðarhafi í gærkvöldi. Ísraelskar herþotur eru sagðar hafa verið á svæðinu og að gera loftárásir í Latakia-héraði í Sýrlandi þegar flugvélin var skotin niður. Fimmtán menn voru í áhöfn flugvélarinnar. en Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir ísraelsku flugmennina hafa þvingað flugvélina í veg fyrir loftvarnarkerfi Sýrlands.

Þá kvarta Rússar yfir því að hafa ekki fengið viðvörun um árásirnar með nægjanlegum fyrirvara. Fyrirvarinn hafi eingöngu verið ein mínúta. Yfirvöld Ísrael hafa þó ekki tjáð sig um málið en þeir viðurkenna sjaldan að hafa gert loftárásir í Sýrlandi.

Rússneska flugvélin var af gerðinni Il-20 og var áhöfn hennar að snúa til baka til flugstöðvar Rússa í Latakia-héraði þegar hún var skotin niður um 35 kílómetra frá ströndum Sýrlands.

„Við lítum á þessar aðgerðir ísraelska hersins sem óvinveittar,“ sagði talsmaður Varnarmálaráðuneytisins við fjölmiðla. „Vegna þeirra eru fimmtán meðlimir herafla Rússlands látnir.“ Hann sagði ísraelsku flugmennina hafa falið sig á bakvið rússnesku flugvélina. Því hefði hún verið skotin niður fyrir slysni.

Rússsar héldu því einnig fram að eldflaugum hefði verið skotið frá frönsku herskipi í Miðjarðarhafi en Frakkar þvertaka fyrir það.

Fyrr í þessum mánuði viðurkenndi ísraelskur embættismaður að rúmlega 200 loftárásir hefðu verið gerðar í Sýrlandi á síðustu 18 mánuðum og þær beindust gegn Írönum og Hezbollah. Yfirvöld Ísrael hafa áhyggjur af auknum umsvifum Íran í Sýrlandi og vilja ekki að Íran komi vopnum í hendur Hezbollah.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×