Enski boltinn

De Gea ánægður hjá United og hlustar ekki á heimskulega gagnrýni

Anton Ingi Leifsson skrifar
De Gea nýtur lífsins á Englandi.
De Gea nýtur lífsins á Englandi.
David De Gea, markvörður Man. United, segist líða mjög vel hjá Manchester United. Það ýtir undir þann orðróm um að hann skrifi undir langtímasamning við félagið á næstu vikum.

De Gea er á síðasta ári núverandi samnings síns en United vill semja við hann til langs tíma. Spánverjinn er ánægður á Old Trafford.

„Mér líður mjög vel hérna. Ég er ánægður að spila fyrir þetta félag, eitt það stærsta í heiminum. Svo fyrir mig er það ánægjulegt að vera hluti af þessu félagi,” sagði De Gea.

De Gea hefur verið stórkostlegur undanfarna mánuði fyrir Man. United en fékk mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína með Spáni á HM í sumar.

„Ég hlusta ekki á fólkið sem er að tala um mig. Ég er með einbeitinguna á mínu verkefni og reyni að hjálpa liðinu - svo ég hlusta ekki á heimskulega hluti sem fólk segir eins og þetta.”

United mætir Young Boys í Meistaradeildinni í kvöld en heimavöllur Young Boys er með gervigras. Því er De Gea ekki vanur.

„Við erum ekki vanir að spila á gervigrasi svo þetta verður öðruvísi fyrir okkur. Líklega aðeins erfiðara en við æfum í dag og sjáum hvernig boltinn rúllar á vellinum.”

„Við munum reyna að spila fótbolta þarna en við vitum að þetta verður mjög erfiður leikur.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×