Fótbolti

Costa fékk fjögurra leikja bann fyrir hrákuna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Costa og Di Franscesco kljást um helgina.
Costa og Di Franscesco kljást um helgina. vísir/getty
Douglas Costa, vængmaður Juventus, hefur verið dæmdur í fjögurra leikja bann í ítölsku úrvalsdeildinni eftir umtalað rautt spjald um helgina.

Á sunnudaginn mættust Juventus og Sassulo en Costa var rekinn af velli fyrir að hrækja á Federico Di Francesco.

Dómarinn sá ekki atvikið en eftir að hafa notast við myndbandsupptökur sá hann hrákuna. Því hann var sendur í sturtu, fyrr en áætlað var.

Costa hafði allt á hornum sér í leiknum og virtist ekki líka við Francesco. Hann gaf honum olnbogaskot og var nærri því búinn að skalla hann fyrr í leiknum. Ekki dagurinn hans Costa.

Costa missir því af leikjum Juventus gegn Frosinone, Bologna, Napoli og Udinese en Costa vildi meina eftir leikinn að Di Francesco hafði sagt eitthvað miður fallegt við Costa.

Brasilíumaðurinn Costa baðst þó afsökunar eftir leikinn á samfélagsmiðlum þar sem hann sagðist hafa brugðist stuðningsmönnum liðsins og félögum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×