Fótbolti

Mourinho ósáttur við gervigrasið: Skil ekki hvernig er hægt að spila á þessu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jose Mourinho var ekki sáttur við að spila á gervigrasi í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Hann var hins vegar nokkuð sáttur við spilamennsku sinna manna í 3-0 sigri á Young Boys.

„Við vorum hræddir um meiðsli hjá nokkrum leikmönnum og það voru nokkrir sem voru ekki alveg heilir eftir æfingar í gær. Menn eru vanari að spila á almennilegu undirlagi í Englandi,“ sagði Mourinho um völlinn eftir sigur Untied í kvöld.

„Fótboltinn er miklu fallegri á grasi.“

„Nú þegar leikurinn er búinn þá má ég segja að ég skil ekki hvernig hægt er að spila fótbolta á besta stigi félagsliðaboltans á gervigrasi.“

Paul Pogba skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja í sigrinum. Mourinho sagði Frakkann hafa verið þreyttan undir lok leiksins.

„Þetta var góð frammistaða. Hann gaf liðinu hraðann sem við þurftum á tímum. Hann stjórnaði hraðanum og skoraði mjög gott mark.“

„Vítaspyrnan sýndi karakter því stundum þá efast maður eftir að hafa misnotað spyrnu en ekki hann.“

Sigur United var nokkuð öruggur og var Mourinho sáttur með frammistöðuna.

„Kláruðum verkefnið. Ekkert framúrskarandi en nógu gott. Eftir fyrsta markið þá var þetta undir okkar stjórn.“

„Það var mikilvægt að vinna því öll liðin í riðlinum ná líklegast í sex stig gegn Young Boys. Nú eigum við fram undan tvo mikilvæga leiki gegn Valencia og Juventus, það eru mjög góðir andstæðingar,“ sagði Jose Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×