Fótbolti

Landsliðskona kastaði upp eftir Þýskalandsleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir. Vísir/Getty
Íslensku stelpurnar keyrðu sig algjörlega út í leiknum mikilvæga á móti Þýskalandi á Laugardalsvellinum á laugardaginn.

Það mun því reyna mikið á þær sjálfar og starfsliðið við að ná fullri endurheimt fyrir Tékkaleikinn sem fer fram á sama stað á morgun.

Einn af þeim leikmönnum sem eru tæpar fyrir Tékkaleikinn er Rakel Hönnudóttir. Rakel átti mjög erfitt eftir leikinn.

Rakel spilaði í 84 mínútur en fór þá af velli fyrir Guðrúnu Arnardóttur.

Rakel fékk fyrst krampa en svo fékk hún mígrenikast og kastaði upp.

„Rakel lenti á vegg með líkamlega þáttinn. Hún kláraði allar orkubirgðar, fékk mígrenikast um kvöldið og kastaði upp. Það getur verið erfitt að fylla á tankinn og við sjáum hvað hún á af orku í dag," sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, við Fótbolta.net í dag.

Rakel Hönnudóttir spilar með sænska liðinu Limhamn Bunkeflo. Hún er einn reyndasti leikmaður íslenska liðsins enda orðin 29 ára gömul og með 94 landsleiki á bakinu.

Það yrði því slæmt að missa þennan reynslubolta út fyrir leikinn á móti Tékkum . Íslensku stelpurnar verða að vinna til að eiga ennþá möguleika á því að komast á HM í Frakklandi 2019 en þær myndu þá tryggja sér sæti í umspilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×