Erlent

Bandaríkin hætta stuðningi við Pakistan vegna vígamanna

Samúel Karl Ólason skrifar
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AP
Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna hafa ákveðið að stöðva 300 milljóna dala fjárstuðning við Pakistan vegna aðgerðarleysis yfirvalda þar í landi varðandi vígahópa. Ríkisstjórn Donald Trump segir yfirvöld Pakistan veita vígamönnum sem berjast gegn Bandaríkjunum í Afganistan hæli í Pakistan.

Trump sagði fyrr á árinu að það eina sem Bandaríkin fengu út úr stuðningi við Pakistan væru „lygar og svik“. Síðan þá hafa Bandaríkin vonast til að sjá breytingar á hegðun Pakistana. James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tók þá ákvörðun í dag að stöðva fjárstuðninginn, samkvæmt Reuters.



Talsmaður Pentagon sagði peningunum hafa verið veitt í önnur verkefni vegna skorts á aðgerðum frá Pakistan. Fyrir það hafði bandaríska þingið stöðvað 500 milljónir dala sem áttu að fara til Pakistan.

Allt í allt er talið að Pakistan hafi fengið um 33 milljarða dala frá Bandaríkjunum. Þar af 14 milljarða í gegnum sjóð sem ætlað er að greiða Bandaríkjunum fyrir aðstoð í stríði þeirra gegn hryðjuverkasamtökum.

Í síðasta mánuði bárust fregnir af því að her Bandaríkjanna væri að koma í veg fyrir að foringjar í pakistanska hernum fengu þjálfun í Bandaríkjunum.

Líklegt þykir að þessari ákvörðun Mattis sé ætlað að senda Imran Khan, nýjum forsætisráðherra Pakistan, skilaboð. Hann hefur lýst því yfir að hann sé andvígur veru Bandaríkjanna í Afganistan og hefur sömuleiðis hótað því að skjóta niður bandaríska dróna sem flogið er inn fyrir lofthelgi landsins.

Efnahagur Pakistan hefur átt betri daga og hefur gjaldeyrisforði þeirra minnkað verulega á undanförnu ári. Líklegt þykir að Pakistan muni leita aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða jafnvel Kínverja, sem þeir eiga í góðum samskiptum við, á næstu mánuðum.

Hér má sjá ræðu Trump frá 22. ágúst þar sem hann gagnrýndi yfirvöld Pakistan harðlega.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×