Íslenski boltinn

Yfirlýsing frá Valsmönnum: „Áhyggjuefni að KSÍ hafi sýnt slíkt dómgreindarleysi“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, fær gula spjaldið í leik Vals og Stjörnunnar fyrr í sumar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, fær gula spjaldið í leik Vals og Stjörnunnar fyrr í sumar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Knattspyrnudeild Vals hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Kristins Jakobssonar í fjölmiðlum í dag. Í yfirlýsingunni lýsa Valsmenn yfir áhyggjum af dómgreindarleysi KSÍ.

Forsaga málsins eru ummæli Ólafs Jóhannessonar, þjálfara Vals, í viðtali eftir leik KA og Vals í Pepsi deild karla í gær.

„Það er púra víti. Dómarinn er náttúrulega Stjörnumaður. Hann er fæddur og uppalinn í Stjörnuheimilinu nánast og auðvitað fór hann ekki að dæma víti fyrir okkur. Það gaf auga leið,“ sagði Ólafur í sjónvarpsviðtali eftir leikinn. Einar Ingi Jóhannsson dæmdi leikinn sem endaði með 3-3 jafntefli.

Vísir hafði í morgun samband við Kristinn Jakobsson, formann dómaranefndar KSÍ. Kristinn sagði ásakanir Ólafs alvarlegar og að framkvæmdarstjóri KSÍ myndi líklega skoða ummælin.

Í yfirlýsingunni sem knattspyrnudeild Vals setti á Twitter í dag er sagt að Einar Ingi sé „yfirlýstur Stjörnumaður“ sem hafi leikið marga leiki í meistaraflokki Stjörnunnar og KFG, venslafélagi Stjörnunnar.

„Það er í raun áhyggjuefni að KSÍ hafi sýnt slíkt dómgreindarleysi og sett Einar Inga á umræddan leik og þar með sett Einar Inga, Val og Stjörnuna í óþægilega stöðu, burt séð frá frammistöðu dómarans í leiknum. Það geta vart talist fagleg vinnubrögð og hefur rýrt trúverðuleika knattspyrnunnar,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjarnan og Valur eru í harðri baráttu á toppi Pepsi deildarinnar, þegar þrjár umferðir eru eftir eru Valsmenn með eins stigs forystu á Stjörnuna.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×