Innlent

Skartgripir úr læstu skríni, barnaveski og tugir þúsunda frá foreldrafélaginu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Fáskrúðsfirði. Lögregla hafði hendur í hári feðganna eftir að húsráðandi kom að öðrum manninum leita verðmæta í þeim tilgangi að stela þeim.
Frá Fáskrúðsfirði. Lögregla hafði hendur í hári feðganna eftir að húsráðandi kom að öðrum manninum leita verðmæta í þeim tilgangi að stela þeim. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Erlendur maður hefur verið ákærður fyrir fjögur húsbrot á Suðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi í sumar. Þá er faðir mannsins einnig grunaður um aðild að brotunum. Maðurinn er jafnframt grunaður um að hafa haldið áfram að brjótast inn í hús á landsbyggðinni eftir að honum var sleppt úr haldi, að því er fram kemur í frétt RÚV.

Ákæra yfir manninum, sem fréttastofa hefur undir höndum, var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í gærmorgun. Er maðurinn ákærður fyrir húsbrot, þjófnað, tilraun til þjófnaðar, líkamsárás og umferðarlagabrot. Honum er gefið að sök að hafa föstudaginn 18. júní farið inn í ólæst hús á Eyrarbakka og stolið þar peningum að verðmæti 85 þúsund krónur úr veski íbúa hússins, 300 evrum úr pyngju húsráðanda, myndavél og 40 þúsund krónum í eigu foreldrafélags barnaskóla Eyrarbakka og Stokkseyrar.

Sjá einnig: Maður í haldi vegna húsbrota á Vesturlandi og allar tengingar kannaðar

Sex þúsund krónur úr barnaveski

Fjórum dögum síðar, þann 22. júní, á maðurinn að hafa farið inn í ólæst hús á Þorlákshöfn og stolið þar skartgripum úr læstu skartgripaskríni og lausafé. Daginn eftir er manninum gefið að sök að hafa stolið fjölmörgum skartgripum úr ólæstu húsi á Hellissandi: fjórum gullúrum, gullarmbandi og barmnælu í eigu húsráðenda. Þá á þjófurinn einnig að hafa tekið 6000 krónur úr barnaveski.

Þremur dögum síðar gerði maðurinn tilraun til þjófnaðar á Fáskrúðsfirði og fór þar inn í ólæst hús. Þar kom húsráðandi að manninum og er þeim síðarnefnda gefið að sök að hafa slegið húsráðanda í kviðinn, líkt og greint var frá á sínum tíma. Maðurinn og faðir hans reyndu því næst að komast undan lögreglu á bíl.
 

Hafnaði utanvegar við eftirför

Lögregla veitti bíl þeirra eftirför og gerði honum að endingu fyrirsát í Breiðdal, þar sem bíllinn hafnaði utan vegar. Maðurinn er ákærður fyrir umferðarlagabrot er hann virti að vettugi fyrirmæli lögreglu um að stöðva bifreiðina í umrætt skipti.

Feðgarnir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald eftir að þeir voru handteknir í júní. Maðurinn sem nú hefur verið ákærður virðist þó hafa haldið áfram að brjótast inn í hús en samkvæmt frétt RÚV var hann handtekinn á fimmtudag með þýfi úr húsbrotum á Hellissandi og Grundarfirði. Vísir greindi frá því á föstudag að maður væri í haldi vegna innbrotanna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.