Körfubolti

Grant Hill, Jason Kidd og Steve Nash allir teknir inn í Heiðurshöllina á föstudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Kidd og Steve Nash.
Jason Kidd og Steve Nash. Vísir/Getty
Tveir af öflugustu leikstjórendum NBA-deildarinnar á sínum verða báðir teknir inn í Heiðurshöll körfuboltans um helgina en þar erum við að tala um Naismith Memorial Basketball Hall of Fame. Þetta eru þeir Jason Kidd og Steve Nash.

2018-árgangur Heiðurshallarinnar verður skipaður þeim Ray Allen, Grant Hill, Jason Kidd, Steve Nash, Maurice Cheeks, Charles "Lefty" Driesell, Dino Radja, Charlie Scott, Katie Smith, Tina Thompson, Rod Thorn, Ora Mae Washington og Rick Welts.





Árleg inntökuhátíð Heiðurshallarinnar fer fram um komandi helgi frá fimmtudegi til laugardags. Inntökuathöfnin sjálf fer fram á föstudagskvöldið.

Það er nú búið að tilkynna hverjir kynna nýju Heiðurshallarmeðlimina á inntökuathöfninni en þeir eru mismunandi á milli manna. Þeir sem kynna nýja menn eru allir meðlimir í Heiðurshöllinni.

Reggie Miller (2012 árgangurinn) mun kynna Ray Allen sem á sínum tíma var með 18,9 stig og 40 prósent þriggja stiga nýtingu í 1300 leikjum í NBA.

Billy Cunningham (1986) og Julius Erving (1993) munu kynna inn Maurice Cheeks sem var með 11,1 stig, 6,7 stoðsendingar og 2,1 stolna bolta að meðaltali í 1101 NBA-leik.





Isiah Thomas (2000), Mike Krzyzewski (2001), Patrick Ewing (2008) og Alonzo Mourning (2014) munu allir kynna Grant Hill sem var með 16,7 stig, 6,0 fráköst og 4,1 stoðsendingu að meðaltali í 1026 NBA-leikjum.

Gary Payton (2013) mun kynna inn Jason Kidd sem var með 12,6 stig, 6,3 fráköst og 8,7 stoðsendingar að meðaltali í 1391 NBA-leik.

Don Nelson (2012) mun kynna inn Steve Nash sem var með 14,3 stig, 8,5 stoðsendingar og 42,8 prósent þriggja stiga nýtingu í 1217 NBA-leikjum.





Larry Bird (1998) mun kynna inn Dino Radja sem var með 16,7 stig og 8,4 fráköst að meðaltali í 224 NBA-leikjum. Radja er fulltrúi Alþjóðakörfuboltasambandsins en vann Evróðpudeildina tvivvar og var á sínum tíma valinn einn af 50 bestu körfuboltamönnum sögunnar af FIBA.

Hér má sjá meira um þessa og hin sem tekin verða inn í Heiðurshöllina um helgina.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×