Fótbolti

Pique gæti farið í fangelsi fyrir umferðarlagabrot

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gerard Pique
Gerard Pique vísir/getty
Varnarmaðurinn Gerard Pique gæti átt yfir höfði sér háa sekt, samfélagsþjónustu eða í versta falli fangelsisdóm fyrir að brjóta umferðarlög á Spáni.

Pique var stöðvaður af lögreglunni í reglubundnu eftirliti í síðustu viku og þá kom í ljós að ökuskírteini hans var orðið ógilt.

Á Spáni byrja allir með 12 punkta á ökuskírteini sínu og punktar eru dregnir frá í hvert skipti sem ökumaður brýtur af sér. Pique var búinn að missa alla punktana sína og þar af leiðandi var ökuskírteinið fallið úr gildi og hann mátti ekki keyra.

„Án þess að fara í of mikið af smáatriðum þá var Pique látinn vita af því að hann ætti enga punkta eftir. Ég er hissa á því að hann sé ekki með bílstjóra,“ sagði yfirmaður spænsku samgöngustofunnar.

Fyrir brotið gæti Pique þurft að greiða nærri 300 þúsund evrur í sekt, verið dæmdur til að vinna samfélagsþjónustu eða í versta falli fá fangelsisdóm í allt að sex mánuði.

Pique sást mæta á æfingu Barcelona á mánudag á rafhjóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×