Enski boltinn

Var ekki í hóp í fyrstu tveimur umferðunum en er nú kominn í enska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Bettinelli ver hér vítaspyrnu um helgina.
Marcus Bettinelli ver hér vítaspyrnu um helgina. Vísir/Getty
Marcus Bettinelli, markvörður Fulham, hefur verið kallaður inn í enska landsliðið fyrir komandi leiki á móti Spáni og Sviss.

Landlsiðsþjálfarinn Gareth Southgate þurfti að gera breytingar á hópnum sínum eftir aðalmarkvörðurinn Jordan Pickford datt út. Pickford er liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton.

Marcus Bettinelli er 26 ára gamall en hann var ekki í hópnum hjá Fulham í tveimur fyrstu leikjum tímabilsins sem töpuðust báðir.

Fulham keypti spænska markvörðinn Fabri frá Besiktast í sumar og það var hann sem spilaði fyrstu tvo leiki liðsins.  Þá fékk Fulham líka spænska markvörðinn Sergio Rico á láni frá Sevilla. Marcus Bettinelli var ekki í hópnum í tveimur fyrstu umferðunum.

Bettinelli hefur aftur á móti spilað síðustu tvo leiki og í þeim hefur Fulham náð í fjögur stig af sex mögulegum þótt að Marcus Bettinelli hafdi fengið á sig fjögur mörk.





Fulham gerði 2-2 jafntefli við Brighton á laugardaginn og þar tryggði Bettinelli liðinu stig með því að verja víti frá Pascal Gross.  

Jordan Pickford æfði ekki með enska landsliðinu í gær og þá hefur Liverpool maðurinn Adam Lallana dregið sig út úr hópnum vegna nárameiðsla.

Bettinelli kom upp í gegnum unglingastarfið hjá Fulham en hann kom til félagsins þegar hann var unglingur. Hann spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði félagsins árið 2014 en hafði þá þrisvar farið á láni til liða í neðri deildunum.

Marcus Bettinelli spilaði einn leik með 21 árs landsliðinu árið 2015 en þjálfari þess var einmitt Gareth Southgate, núverandi þjálfari enska A-landsliðsins.

Bettinelli fær nú sæti í landsliðshópnum aðeins níu dögum eftir að hann spilaði sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni.

Markverðirnir í enska landsliðshópnum er nú auk Jordan Pickford og Marcus Bettinelli þeir Jack Butland (Stoke) og Alex McCarthy (Southampton).










Fleiri fréttir

Sjá meira


×