Körfubolti

Komnar í úrslitin um titilinn en þurfa að flakka með heimaleiki sína á milli íþróttahúsa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elena Delle Donne er stærsta stjarna Washington Mystics liðsins.
Elena Delle Donne er stærsta stjarna Washington Mystics liðsins. Vísir/Getty
Seattle Storm og Washington Mystics spila til úrslita í WNBA-deildinni í körfubolta í ár en undanúrslitunum lauk í nótt.

Seattle Storm vann Phoenix Mercury 94-84 og þar með 3-2 en Washington Mystics vann 86-81 útisigur á Atlanta Dream og einvígið þar með 3-2.

Þetta er í fyrsta sinn sem Washington Mystics kemst í lokaúrslitin en það gerði liðið þrátt fyrir að lenda 2-1 undir í einvíginu og aðalstjarnan Elena Delle Donne  meiddist í einvíginu. Delle Donne harkaði að sér og var betri en enginn.

Gamli og nýi tíminn mætast hjá Seattle Storm en þar er ungstirnið og besti leikmaður deildarinnar í vetur, Breanna Stewart, að spila við hlið goðsagnarinnar Sue Bird.





Sue Bird er orðin 37 ára gömul og hefur unnuið titilinn tvisvar sinnum með Seattle Storm (2004 og 2010). Hún ákvað að vera áfram hjá félaginu þegar það fór í uppbyggingu sem endaði með að liðið valdi Breanna Stewart með fyrsta valrétt.

Breanna Stewart skoraði 28 stig í leiknum í nótt en Sue Bird skoraði aftur á móti 14 af 22 stigum sínum á síðutu sex mínútum leiksins.

Seattle Storm er með heimavallarréttinn í lokaúrslitunum og þar byrjar úrslitaeinvígið á föstudagskvöldið.







Washington Mystics getur hins vegar ekki spilað leiki sína á heimavelli sínum sem er Capital One Arena þar sem NBA-lið Washington Wizards spilar líka. Ástæðan er að það er við að laga húsið fyrir komandi NBA-tímabil.

Mystics getur ekki einu sinni spilað heimaleiki sína á sama stað og í undanúrslitunum. Þar lék liðið í íþróttahúsi George Washington háskólans, Charles E. Smith Center, en nú er það upptekið.

Washington Mystics þurfa því að færa sig yfir í íþróttahús George Mason háskólans, EagleBank Arena og er því í raun á útivelli í þessum mikilvægu leikjum á móti Seattle Storm.





Charles E. Smith Center var stutt frá Capital One Arena í Washington borg en EagleBank Arena er talsvert lengra frá.

Ótrúleg aðstaða hjá liði í lokaúrslitum um WNBA-titilinn en sýnir kannski að forráðamenn félagsins bjuggust ekki við því að þær kæmust alla leið í ár.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×