Sport

Þótti of stór fyrir rugby og snéri sér að NFL-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Mailata.
Jordan Mailata. Vísir/Getty
Jordan Mailata verður með liði NFL-meistara Philadelphia Eagles annað kvöld þegar meistararnir hefja titilvörn sína á móti Atlanta Falcons.

Philadelphia Eagles valdi Jordan Mailata með 233. valrétti í NFL nýliðavalinu í apríl síðastliðnum og honum tókst að vinna sér sæti í 53 manna leikmannahópi Arnanna.





Það er aðeins eitt ár síðan að Jordan Mailata setti fyrst hjálm á hausinn og fór að reyna fyrir sér í amerískum fótbolta. Áður hafði hann stundað rugby íþróttina af kappi í Ástralíu.

Mailata spilaði ekki amerískan fótbolta í menntaskóla eða í háskóla og var ekkert búinn að setja stefnuna þangað á meðan hann var táningur. Hann þurfti aftur á móti að gangast undir tvær hjartaðgerðir árið 2015 og það truflaði uppgang hans í rugby íþróttinni.

„Ég býst við því að það sér draumur allra leikmanna í ameríska fótboltanum að komast í NFL-deildina. Ég er mjög heppinn að fá að upplifa bæði mína drauma og þeirra,“ sagði Jordan Mailata í viðtali við vefsíðu Foxsports.

Það var þjálfari South Sydney liðsins, Michael Maguire, sem gerði sér grein fyrir því að Mailata ætti frekar heima í ameríska fótboltanum en í rugby.





„Hann er auðvitað risastór en um leið með sprengikraft og góðan hreyfanleika fyrir svona stóran mann,“ skrifaði Michael Maguire um Mailata í grein fyrir PlayersVoice.

„Stuttir kaflar á fullu passar honum vel,“ bætti Maguire við en á meðan leikkaflarnir eru lengri í rugby þá eru átökin meiri í NFL-deildinni.

Á lista Eagles liðsins er Mailata skráður 203 sentímetrar og 157 kíló. Hann er stór en þó ekki stærsti leikmaðurinn í NFL-deildinni. Hann hefði hins vegar verið stærsti leikmaðurinn í NRL rugby deildinni í Ástralíu.

„Mér fannst ég ekki vera of stór til að spila rugby. Ég talaði ekki um það sjálfur heldur voru aðrir að benda á það og segja mér það. Ég var samt tilbúinn að taka þetta áhættu og reyna að komast í NFL þegar fólk sagði að ég væri of stór fyrir rugby. Ég hlæ bara af því núna,“ sagði Mailata.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×