Erlent

Musk heldur barnaníðsásökunum á hendur kafaranum til streitu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Elon Musk hefur átt strembið ár.
Elon Musk hefur átt strembið ár. Vísir/Getty

Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX, virðist enn vera á þeirri skoðun að kafarinn Vern Unsworth, einn af þeim sem kom að björgunaraðgerðum í Taílandi í sumar þegar fótboltalið festist inn í helli, sé barnaníðingur. Í tölvupóstum til blaðamanns Buzzfeed endurtók hann ásakanirnar og hvatti blaðamanninn til að rannsaka fortíð kafarans.

Vakti það mikla athygli fyrr í sumar þegar Musk kallaði Unsworth barnaperra, eftir að sá síðarnefndi gagnrýndi Musk og aðkomu hans að björgun knattspyrnuliðsins, en Musk lét útbúa kafbát sem var þó ekki notaður við björgunaraðgerðir.

Var Musk harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín um Unsworth og baðst að lokum afsökunar á þeim, eftir að Unsworth hafði hótað honum lögsókn. Í síðustu viku tók Musk hins vegar þráðinn upp að nýju og ýjaði enn að því að Unsworth væri barnaníðingur. Sagði Unsworth eftir það að tekið yrði á málinu.

Vern Unsworth er breskur hellakafari og verðbréfamiðlari. Hann hefur verið búsettur í Tælandi um árabil. Vísir/EPA

Hvatti blaðamanninn til að hætta að „verja barnanauðgara“

Af þessu tilefni hafði blaðamaður Buzzfeed samband við Musk til þess að athuga hvort hann óttaðist lögsókn vegna ummæla sinna á Twitter, í ljósi þess að Unsworth hafði hótað lögsókn vegna fyrri ummæla Musk.

Svaraði Musk um hæl og endurtók þá árásir sínar á Unsworth. Svo virðist sem að hann hafi haldið að efni tölvupósta hans til blaðamannsins yrði trúnaðarmál en í umfjöllun Buzzfeed kemur fram að blaðamaðurinn hafi aldrei samþykkt slíka kröfu og því líti vefmiðillinn á að efni tölvupóstanna hafi ekki verið trúnaðarmál.

„Ég legg til að þú hringir í fólk sem þú þekkir í Taílandi og komist að því hvað sé nákvæmlega í gangi og hættir að verja barnanauðgara, helvítis fíflið þitt,“ skrifaði Musk í fyrsta tölvupóstinum til blaðamannsins áður en hann sagði að Unsworth hefði flutt til Taílands til þess að giftast tólf ára gamalli taílenskri stúlku.

Sjá einnig: Musk segist hafa átt erfitt ár

„Hvað varðar þessa hótanir um lögsókn, sem hurfu skyndilega þegar ég minntist á þetta, þá vona ég að hann lögsæki mig“, skrifaði Musk.

Í frétt Buzzfeed segir að ekki sé vitað hvaðan Musk hafi þær uppýsingar sem staðhæfingar hans um fortíð Unsworth byggi á, né hvort hann búi yfir sönnunargögnum til þess að sýna fram á sannleiksgildi þeirra. Þá segir einnig í frétt Buzzfeed að rannsókn vefmiðilsins á fortíð Unsworth hafi ekki leitt neitt í ljós sem rennt geti stoðum undir fullyrðingar Musk.

Frétt Buzzfeed má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.