Skoðun

Að segja nei

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Verktakar hafa of lengi haft nánast dáleiðandi áhrif á meirihluta borgarstjórnar. Meðan meirihlutinn sveif um í hálfgerðu svefnástandi fengu verktakar frjálsar hendur. Þeir kunnu sannarlega að nýta sér það og óðu um miðbæinn í leit að auðum reitum. Þegar þeir voru fundnir var umsvifalaust hafist handa við að reisa þar hótel. Afleiðingin er sú að Reykjavík er hótelborg. Svo að segja á hverju horni í miðbænum má finna hótel, bæði stór og smá. Sannarlega setja þau svip á miðbæinn, en ekki skemmtilegan. Til er orðinn miðbær sem samanstendur að mestu af hótelum, veitingastöðum og lundabúðum með hrópandi ósmekklegan varning. Það er ekki nema von að stór hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins, sem býr annars staðar en í miðbænum, sér litla ástæðu til að leggja reglulega leið sína þangað. Þar er einfaldlega ekki nægilega mikið að sækja. Enn er til Bankastræti en þar er enginn banki lengur. Pósthússtræti er vissulega á sínum stað en Pósthúsið er að flytja burt. Götunöfnin minna á að eitt sinn var hægt að sækja þangað þjónustu. Nú er lítið þar að hafa, alltaf er þó hægt að rölta inn á veitingastaði. Hafi menn svo geð í sér til þess má fara í spássitúr og virða fyrir sér ný hótel.

Borgarstjórnarmeirihluti sem leggur áherslu á aðlaðandi miðbæ hefur horft aðgerðalaus á verktaka hertaka borgina. Nú er reynt að losa sig undan þessu ægivaldi því stjórnendur Reykjavíkurborgar hafa gripið til aukinnar stýringar í hóteluppbyggingu og segja ekki rými fyrir fleiri hótel á ákveðnum svæðum í miðbænum. Það er hárrétt að það eru ekki ýkja margir auðir reitir eftir í miðbænum. Þeir urðu hótelglöðum verktökum að bráð. Hin haukfránu og gráðugu augu verktaka virðast samt sjá enn fleiri tækifæri til hóteluppbyggingar í miðbænum og mótmæla nýrri stefnu Reykjavíkurborgar harðlega. Þeir segjast nú neyðast til að endurhugsa fyrirhuguð hótelverkefni í miðbænum. Það er ekki nema von að þeim sé brugðið, því þeir hafa komist upp með það sem þeim sýnist. Nú verður blessunarlega breyting á því. Hins vegar er dapurlegt fyrir unnendur miðbæjarins að þessi breyting hafi ekki orðið mun fyrr.

Formaður skipulags- og samgönguráðs, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, hefur sagt að á síðustu árum hafi verið mikill þrýstingur frá verktökum, en sagði jafnframt að borgin hefði margoft neitað að veita hótelleyfi. Gott er til þess að vita að í borgarkerfinu hafi menn þorað að segja nei við verktaka. Um leið er ljóst að ekki hefur verið sagt nei nógu oft. Það er nefnilega list að segja nei og það hefur tekið langan tíma hjá Reykjavíkurborg að ná tökum á því.

Borgaryfirvöld hafa sýnt verktökum linkind og leyft þeim að vaða uppi. Afleiðingarnar blasa við í miðbænum þar sem hverju hótelinu á fætur öðru hefur verið plantað niður. Nú loks finnst borgaryfirvöldum mál að linni. Hin dapurlega staðreynd er hins vegar sú að skaðinn er þegar orðinn.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×