Fótbolti

Kroos: Sane þarf að bæta líkamstjáninguna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sane og Kroos á æfingu þýska landsliðsins
Sane og Kroos á æfingu þýska landsliðsins Vísir/Getty
Toni Kroos segir að samherji sinn í þýska landsliðinu, Leroy Sane, þurfi að bæta líkamstjáningu sína.

Sane vann Englandsmeistaratitilinn með Manchester City í vor en var ekki valinn í HM hóp Þjóðverja. Hann fékk hins vegar kallið frá Joachim Löw fyrir leikinn gegn Frökkum í Þjóðadeildinni á morgun.

Miðjumaðurinn ungi hefur ekki enn byrjað leik fyrir Manchester City á tímabilinu og Pep Guardiola skildi hann eftir utan hóps í leik City og Newcastle um helgina. Við það kom strax upp umræða hvort ósátti væri á milli Þjóðverjans og Guardiola.

„Stundum þá finnst manni á líkamstjáningu Leroy að honum sé alveg sama hvort hann vinni eða tapi. Hann verður að bæta það,“ sagði Kroos.

„Hann hefur alla burði til þess að verða heimsklassa leikmaður en stundum þarf að segja honum að hann þurfi að gera betur.“

„Hann var frábær fyrir City síðasta vetur en Pep á við vandamál að stríða þessa dagana, hann þarf að ná því besta úr Sane.“

Leikur Þýskalands og Frakklands er sá fyrsti í A deild Þjóðadeildarinnar og verður hann í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×