Viðskipti innlent

Kanadískt félag kaupir Green Energy Iceland

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Green Energy Geothermal vinnur að endurnýjun vélbúnaðar í gömlu gufustöðinni í Bjarnarflagi. Framkvæmdir hófust í mars. Ljósmynd/Landsvirkjun
Green Energy Geothermal vinnur að endurnýjun vélbúnaðar í gömlu gufustöðinni í Bjarnarflagi. Framkvæmdir hófust í mars. Ljósmynd/Landsvirkjun
Kanadíska fjárfestingarfélagið Energy Co-Invest Global hefur gengið frá kaupum á helstu eignum orkufyrirtækisins Green Energy Geothermal (GEG), þar á meðal Green Energy Iceland. Nýr eigandi hyggst sameina alla starfsemi GEG á heimsvísu í nýjum höfuðstöðvum í Reykjavík.

GEG, sem var stofnað árið 2008 af íslenskum verkfræðingum í samvinnu við norska fjárfesta, sérhæfir sig í framleiðslu lítilla og meðalstórra jarðvarmavirkjana en félagið vinnur um þessar mundir að endurnýjun gömlu gufustöðvar Landsvirkjunar í Bjarnarflagi og hefur á síðustu árum reist fjölmargar jarðvarmavirkjanir í Kenía. Til viðbótar starfar félagið í Asíu, Karíbahafinu og Rómönsku-Ameríku.

Ekki er vitað hvert kaupverðið er. Green Energy Iceland tapaði 74,5 milljónum króna á síðasta ári en fram kemur í ársreikningi félagsins að nokkur óvissa hafi ríkt um verkefnastöðu samstæðunnar, sem er bresk, og þar af leiðandi rekstrarhæfi dótturfélagsins. Þó er tekið fram að greiðsluhæfi félagsins verði tryggt í nánustu framtíð.

Er rakið í ársreikningnum að frá því í desember árið 2016 hafi hlutafé móður­félagsins, GEG, verið aukið um 3,3 milljónir punda, jafnvirði 465 milljóna króna, í því augnamiði að standa við samninga félagsins, þar með talið við Landsvirkjun, og afla nýrra samninga.

Þá skrifaði Green Energy Iceland undir samning við fjárfesta í apríl um stofnun þróunarfélags sem hyggst reisa 110 megavatta jarðvarmavirkjun í Indónesíu. Áætlað er að fjárfesting félagsins í verkefninu verði um 11 milljónir dala.

24 manns störfuðu hjá Green Energy Iceland í fyrra en tækni- og rannsóknarsvið samstæðunnar hafa verið til húsa hér á landi allt frá stofnun. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×