Erlent

Paragvæjar flytja sendiráðið aftur til Tel Aviv

Atli Ísleifsson skrifar
Mario Abdo Benítez er nýr forseti Paragvæ.
Mario Abdo Benítez er nýr forseti Paragvæ. Vísir/Getty
Mikil spenna er komin upp í samskiptum Ísraels og Paragvæ eftir að ríkisstjórn Paragvæ tilkynnti að sendiráð landsins í Ísrael yrði flutt aftur til Tel Avív, þremur mánuðum eftir að það var flutt til Jerúsalem.

Einungis þrír mánuðir eru síðan að ríkisstjórn Paragvæ tilkynnti að landið myndi fylgja fordæmi Bandaríkjastjórnar með því að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flytja sendiráð sitt til borgarinnar.

Stjórnvöld í Ísrael hafa gagnrýnt nýjustu ákvörðun stjórnar Paragvæ harðlega, lokað sendiráði sínu í paragvæsku höfuðborginni Asunción og kallað sendiherrann heim. Ný stjórn tók við völdum í Paragvæ fyrir um mánuði síðan og segir nýr utanríkisráðherra landsins Luis Alberto Castiglioni, að Paragvæar vilji með þessi leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að ná fram varanlegum friði í Miðausturlöndum.

Allt frá stofnun Ísraelsríkis 1948 hefur Jerúsalem verið bitbein deiluaðila á svæðinu, en öll stóru trúarbrögðin þrjú á svæðinu – íslam, gyðingdómur og kristindómur – líta á hana sem heilaga borg.

Vegna stöðu borgarinnar hefur alþjóðasamfélagið ekki viðurkennt Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og þess í stað flokkað Tel Avív sem höfuðborgina. Þannig var ekkert sendiráð staðsett í Jerúsalem frá dögum Sex daga stríðsins árið 1967 þar til að Bandaríkjamenn fluttu sitt fyrr á árinu. Gvatemala og Paragvæ fylgdu svo í kjölfar Bandaríkjanna, en nú hafa Paragvæar sem sagt endurskoðað ákvörðun sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×