Erlent

Reyna að draga úr spennu í samskiptum ríkjanna

Atli Ísleifsson skrifar
Heiko Maas og Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherrar Þýskalands og Tyrklands, í Ankara fyrr í dag.
Heiko Maas og Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherrar Þýskalands og Tyrklands, í Ankara fyrr í dag. Vísir/Getty
Utanríkisráðherrar Þýskalands og Tyrklands funduðu í tyrknesku höfuðborginni Ankara fyrr í dag, en samskipti ríkjanna hafa verið sérstaklega stirð síðustu tvö árin. Með fundunum er vonast til að hægt verði að draga úr spennu milli ríkjanna.

„Tyrkland og Þýskaland vinna nú ötullega að því að styrkja böndin,“ sagði Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, á fréttamannafundi í tengslum við fund hans og starfsbróður síns frá Þýskalandi, Heiko Maas. Maas fundaði sömuleiðis með Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta.

Auk þess að ræða samskipti ríkjanna ræddu ráðherrarnir ástandið í sýrlensku borginni Idlib og sagði Maas að þýska ríkisstjórnin íhugi nú að senda aukna aðstoð til Sýrlendinga sem hafi flúið til nágrannaríkja.

Samskipti Þýskalands og Tyrklands hafa verið stirð allt frá misheppnaðri valdaránstilraun í Tyrklandi árið 2016. Þá hefur þýska stjórnin mótmælt að fjölda þýskra ríkisborgara sé haldið í tyrkneskum fangelsum sem pólitískir fangar. Þá hefur Erdogan verið reiður þýskum stjórnvöldum fyrir að banna tyrkneska kosningafundi í Þýskalandi.

Síðar í mánuðinum mun Erdogan halda í opinbera heimsókn til Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×