Erlent

Kim pirraður á því að heimurinn trúi honum ekki

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/AP
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, vill að góðvild sín verði endurgoldin. Hann er pirraður yfir því að heimurinn virðist ekki trúa því að Norður-Kórea ætli sér að láta kjarnorkuvopn sín af hendi. Þetta kom fram í máli embættismanna frá Suður-Kóreu í morgun eftir að þeir fóru til Pyongyang og ræddu við Kim.

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu mun ferðast til Pyongyang og funda með Kim 18. til 20. september og verður það í þriðja seinn frá því í apríl sem þeir funda.



Embættismennirnir segjast hafa flutt skilaboð frá Donald Trump til Kim og að Trump muni fá svar einræðisherrans í dag.

Norður-Kóreumenn hafa lýst því yfir að þeir vilji losna við viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir í staðinn fyrir stök skref sem þeir taka í afkjarnavopnun. Þeir segja að Bandaríkin geti ekki búist við því að Norður-Kórea muni láta vopn sín af hendi á meðan ekki sé létt á viðskiptaþvingunum.

Ríkisstjórn Trump hefur hins vegar ekki tekið það í mál og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur farið víða um heiminn að undanförnu og rætt nauðsyn þess að halda þrýstingi á Norður-Kóreu.



Kim hét því, á fundi með embættismönnunum frá Suður-Kóreu, að losa Kóreuskagann við kjarnorkuvopn en vert er að benda á það að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segist ekki hafa séð neinar vísbendingar um að yfirvöld Norður-Kóreu hafi hætt eða dregið úr kjarnorkuvopnaáætlun sinni.



Á fundi Kim og embættismannanna sagði einræðisherrann einnig að hann hefði enn trú á Trump, þrátt fyrir bakslag í sambandi þeirra, og ítrekaði að hann hefði aldrei talað illa um forsetann bandaríska. Jafnvel ekki við sína nánustu ráðgjafa.

Trump virðist ánægður með yfirlýsingu Kim ef marka má Twittersíðu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×