Innlent

Óvíst hvort nokkuð fáist upp í milljóna tjón Hörpu og Sigur Rósar

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Kári Sturluson.
Kári Sturluson. Fréttablaðið/gva
„Málið er komið í það horf sem til þarf til að komast að því hvort það séu einhverjar eignir þarna,“ segir Baldvin Björn Haraldsson, lögmaður Hörpu ohf. sem staðið hefur í málarekstri gegn tónleikahaldaranum Kára Sturlusyni og félagi hans, KS Productions slf., til að endurheimta þær 35 milljónir króna af miðasölutekjum sem Kári fékk fyrirframgreiddar vegna tónleika Sigur Rósar í desember síðastliðnum.

Fréttablaðið greindi frá því fyrst í september í fyrra að 35 milljónir af miðasölutekjunum væru horfnar. Í nóvember fór Harpa fram á kyrrsetningu á öllum eignum Kára og KS Productions til að tryggja hagsmuni Hörpu og hljómsveitarinnar auk þess sem Kára var stefnt til greiðslu á 35 milljónunum.

Kyrrsetningin var staðfest en reyndist árangurslaus að hluta þar sem eignir nægðu ekki upp í kröfuna og óskaði Harpa ohf. því eftir gjaldþrotaskiptum á Kára og félaginu.

Héraðsdómur úrskurðaði Kára og félagið gjaldþrota í maí og staðfesti Landsréttur það mánuði síðar.

Þegar ljóst varð að þrotameðferð væri hafin á Kára og KS Productions var kyrrsetningarmálið fellt niður af Hörpu. Skiptastjóri þrotabús Kára krafði þá Hörpu um málskostnað og féllst héraðsdómur á að Hörpu bæri að greiða Kára 400 þúsund krónur í málskostnað en Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu við. Harpa slapp því við málskostnaðinn.

Staðan nú er því sú að skiptastjóri vinnur að því að finna eignir upp í kröfur Hörpu í málinu.

Fram hafði komið fyrir dómi í málinu að Harpa og Sigur Rós hefðu skipt með sér 35 milljóna króna tapinu á sínum tíma svo tónleikarnir gætu farið fram. Hvort það fjárhagstjón sem af gjörningnum varð fáist bætt veltur því nú á því hvort skiptastjóra takist að finna nægar eignir upp í kröfuna og takist betur upp en í árangurslausu kyrrsetningunni sem reynd var áður. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×