Sport

Þriggja mánaða þegar Serena komst fyrst í úrslit en mætir nú drottningunni í úrslitaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naomi Osaka.
Naomi Osaka. Vísir/Getty

Serena Williams og Naomi Osaka tryggðu sér í nótt sæti í úrslitaleiknum á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis í ár.

Þetta verður 31. úrslitaleikurinn á risamóti hjá Serenu Williams en sá fyrsti hjá Naomi Osaka. Osaka er meira að segja fyrsta japanska tenniskonan frá upphafi sem kemst í úrslit á risamóti.

Naomi Osaka er aðeins tvítug og verður yngsti spilarinn í úrslitum US Open síðan að hin danska Caroline Wozniacki komst þangað nítján ára gömul árið 2009.

Þegar Serena Williams komst fyrst í úrslitaleik á risamóti þá var Naomi Osaka aðeins þriggja mánaða gömul.Serena Williams átti ekki í miklum vandræðum á móti hinni lettnesku Anastasija Sevastova og vann örugglega 6-3 og 6-0.

Naomi Osaka sló út hina bandarísku Madison Keys 6-2 og 6-4 en Keys átti möguleika á því að komast í úrslitaleikinn annað árið í röð.

„Þetta hljómar kannski ekki alltof vel en ég var bara að hugsa: Mig langar svo að mæta Serenu,“ sagði Naomi Osaka um það sem hún var að hugsa í leiknum. En af hverju? „Af því að hún er Serena,“ svaraði Osaka. „Þegar ég var lítil stelpa þá dreymdi mig um að mæta Serenu í úrslitaleik á risamóti,“ sagði Naomi Osaka.

Serena Williams hafði ekki náð að klára síðustu tvo undanúrslitaleiki sína á Opna bandaríska mótinu því hún tapaði á móti Roberta Vinci árið 2015 og á móti Karolinu Pliskova árið 2016. Hún missti líka af mótinu í fyrra því hún var þá að eignast dóttur sína Olympia.Þetta verður annar úrslitaleikur hennar eftir fæðingu Olympiu en Serena tapaði úrslitaleiknum á Wimbledon mótinu í sumar. Nú er hún sigurstrangleg og getur tryggt sér enn einn titilinn aðeins nokkum vikum áður en hún heldur upp á 37 ára afmælið sitt.

„Þetta er alveg ótrúlegt. Fyrir einu ári var ég bókstaflega að berjast fyrir lífi mínu á spítalanum eftir að hafa átt barnið. Ég er því svo þakklát fyrir hvert skipti sem ég stíg út á tennisvöllinn. Það skiptir því engu hvað gerist í undanúrslitunum eða úrslitaleiknum því mér finnst ég þegar hafa unnið,“ sagði Serena Williams.

Serena Williams er nú kominn í sinn níunda úrslitaleik á Opna bandaríska meistaramótinu og jafnar með því met Chris Evert. Hún fær þar tækifæri til að vinna US Open í sjöunda sinn á ferlinum og um leið sitt 24. risamót sem yrði að sjálfsögðu bæting á hennar eigin meti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.