Sport

Þriggja mánaða þegar Serena komst fyrst í úrslit en mætir nú drottningunni í úrslitaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naomi Osaka.
Naomi Osaka. Vísir/Getty
Serena Williams og Naomi Osaka tryggðu sér í nótt sæti í úrslitaleiknum á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis í ár.

Þetta verður 31. úrslitaleikurinn á risamóti hjá Serenu Williams en sá fyrsti hjá Naomi Osaka. Osaka er meira að segja fyrsta japanska tenniskonan frá upphafi sem kemst í úrslit á risamóti.

Naomi Osaka er aðeins tvítug og verður yngsti spilarinn í úrslitum US Open síðan að hin danska Caroline Wozniacki komst þangað nítján ára gömul árið 2009.

Þegar Serena Williams komst fyrst í úrslitaleik á risamóti þá var Naomi Osaka aðeins þriggja mánaða gömul.





Serena Williams átti ekki í miklum vandræðum á móti hinni lettnesku Anastasija Sevastova og vann örugglega 6-3 og 6-0.

Naomi Osaka sló út hina bandarísku Madison Keys 6-2 og 6-4 en Keys átti möguleika á því að komast í úrslitaleikinn annað árið í röð.

„Þetta hljómar kannski ekki alltof vel en ég var bara að hugsa: Mig langar svo að mæta Serenu,“ sagði Naomi Osaka um það sem hún var að hugsa í leiknum. En af hverju? „Af því að hún er Serena,“ svaraði Osaka. „Þegar ég var lítil stelpa þá dreymdi mig um að mæta Serenu í úrslitaleik á risamóti,“ sagði Naomi Osaka.

Serena Williams hafði ekki náð að klára síðustu tvo undanúrslitaleiki sína á Opna bandaríska mótinu því hún tapaði á móti Roberta Vinci árið 2015 og á móti Karolinu Pliskova árið 2016. Hún missti líka af mótinu í fyrra því hún var þá að eignast dóttur sína Olympia.





Þetta verður annar úrslitaleikur hennar eftir fæðingu Olympiu en Serena tapaði úrslitaleiknum á Wimbledon mótinu í sumar. Nú er hún sigurstrangleg og getur tryggt sér enn einn titilinn aðeins nokkum vikum áður en hún heldur upp á 37 ára afmælið sitt.

„Þetta er alveg ótrúlegt. Fyrir einu ári var ég bókstaflega að berjast fyrir lífi mínu á spítalanum eftir að hafa átt barnið. Ég er því svo þakklát fyrir hvert skipti sem ég stíg út á tennisvöllinn. Það skiptir því engu hvað gerist í undanúrslitunum eða úrslitaleiknum því mér finnst ég þegar hafa unnið,“ sagði Serena Williams.

Serena Williams er nú kominn í sinn níunda úrslitaleik á Opna bandaríska meistaramótinu og jafnar með því met Chris Evert. Hún fær þar tækifæri til að vinna US Open í sjöunda sinn á ferlinum og um leið sitt 24. risamót sem yrði að sjálfsögðu bæting á hennar eigin meti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×