Fótbolti

Hefðin sem varð til á Laugardalsvellinum 1998 herjar enn á nýkrýnda heimsmeistara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landliðsþjálfarinn Guðjón Þórðarson fagnar marki Ríkharðs Daðasonar í leiknum fræga í september 1998.
Landliðsþjálfarinn Guðjón Þórðarson fagnar marki Ríkharðs Daðasonar í leiknum fræga í september 1998. vísir/hilmar
Heimsmeistarar hafa ekki unnið sinn fyrsta leik eftir HM undanfarin tuttugu ár og það breyttist ekki hjá Frökkum í gærkvöldi.

Franska landsliðið lék í gær sinn fyrsta leik síðan að liðið vann 4-2 sigur á Króatíu í Moskvu í úrslitaleik HM í Rússslandi.

Frakkar gerðu þá markalaust jafntefli við Þýskaland á Allianz Arena í München en þetta var fyrsti leikur þjóðanna í Þjóðadeildinni.

Tuttugu árum fyrr þá spiluðu Frakkar fyrsta mótsleik sinn eftir sigurinn á HM 1998 á Laugardalsvellinum og gerðu þá eftirminnilegt 1-1 jafntefli.

Ríkharður Daðason kom þá Íslandi í 1-0 með skalla eftir aukaspyrnu Rúnars Kristinssonar á 33. mínútu en markvörðurinn Fabian Barthez fór þá í mikið skógarhlaup. Frakkar jöfnuðu þremur mínútum síðar með marki Christophe Dugarry en fleiri urðu mörkin ekki.

Síðan þá hefur engum heimsmeisturum tekist að vinna sinn fyrsta leik. Brasilíumenn töpuðu 2002 alveg eins og Ítalir 2006. Spánverjar gerðu jafntefli 2010 og Þjóðverjar töpuðu 2014.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig heimsmeisturum hefur gengið í fyrsta leik sínum eftir að þeir fönguðu heimsmeistaratitli.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×