Innlent

Skrautlegur ferill umdeildrar tálbeitu

Jakob Bjarnar og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Jóhannes Gísli hefur verið í sviðsljósinu í vikunni vegna umdeildra tálbeituaðferða sinna sem snúast um að grípa meinta barnaníðinga glóðvolga og kynna þá á netinu.
Jóhannes Gísli hefur verið í sviðsljósinu í vikunni vegna umdeildra tálbeituaðferða sinna sem snúast um að grípa meinta barnaníðinga glóðvolga og kynna þá á netinu.
Jóhannes Gísli Eggertsson, 24 ára karlmaður sem leiddi mann á sextugsaldri í gildru um síðustu helgi, segir að brotið hafi verið á sér sjálfum kynferðislega þegar hann var sextán ára. Það sé meðal annars þess vegna sem hann berjist fyrir opnum tjöldum gegn því að slíkir menn fái þrifist.

Jóhannes Gísli var í viðtali í Íslandi í dag í gærkvöldi þar sem hann sagði sína skoðun afdráttarlaust. Hann kallar sig „Jóa lífið“ á Facebook og Snapchat, en gengur undir ýmsum nöfnum á Einkamál.is og Skype, þar sem hann leiðir menn með meintar annarlegar hvatir í gildru – undir því yfirskini að hann sé stúlka fædd árið 2004. Hann dregur þá á tálar, fellst á að hitta þá sem 14 ára stúlka en birtist svo sjálfur á staðnum og hellir sér yfir mennina.

Skúrkur eða hetja?

Þessi samskipti sín við mennina hefur Jóhannes birt á samfélagsmiðlum. Klippa frá Jóhannesi Gísla sem fór á netið um liðna helgi hefur fengið tæplega 200 þúsund áhorf. Sitt sýnist hverjum um aðferðirnar, er Jóhannes Gísli ýmist hylltur sem hetja – engin meðöl teljist of óvönduð þegar barnagirnd er annars vegar eða hann telst skúrkur sem beitir vafasömum aðferðum með því að hvetja menn til brota og taka þá svo af lífi opinberlega.

Í áðurnefndri umfjöllun Íslands í dag er rætt við Karólínu Finnbjörnsdóttur kennara við lagadeild HR sem er sérfróð um tálbeitur í sakamálum. Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu mikla óbeit hafa má kynferðisbrotum, hvað þá gegn börnum en Karólína bendir á að þetta sé spurning sem við sem samfélag verðum að spyrja okkur sjálf; jafnvel hvort vert sé að varpa formlegum leiðum, aðferðum réttarríkisins, fyrir róða og láta dómsstól götunnar um mál sem þessi? Karólína telur að ef fólk leggur málið niður fyrir sig og hugsar það til enda megi ætla að fæstir séu þeirrar skoðunar.

Segist hvergi nærri hættur

Sjálfur telur Jóhannes Gísli birtinguna fyllilega réttmæta og lýsti því meðal annars yfir í samtali við Íslandi í dag en dró í land í gær og sagðist sjá eftir því að hafa birt klippuna á netinu þar sem andlit mannsins var þekkjanlegt. Betra væri að koma gögnunum til lögreglunnar og birta nafn og mynd eftir að viðkomandi hefur hlotið fangelsisdóm.

Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður segir að fólk verði að velta því fyrir sér hvort við viljum hverfa frá lögformlegum leiðum þar sem réttar sakborninga er gætt.lmb mandat lögmannsstofa
Þetta kom fram í yfirlýsingu frá honum þar sem hann þakkar mikinn stuðning og segir meðal annars. „Ég tek mér nú smá frí frá snappinu, síðunni og öllu sem tengist „Jóa Lífið“ en kem sterkur til baka eftir smá tíma. Ég er samt ekki hættur, það er of mikið af þeim þarna úti og þeir verða stöðvaðir.“

Líklega brotlegur við lög sjálfur

Jóhannes var kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfesti við Vísi í gær að nýlegt mál væri á borði þeirra sem tengdist tálbeituaðgerð óbreytts borgara. Málið heyrir undir kynferðisbrotadeild lögreglu og fengust ekki nánari upplýsingar um stöðu þess.

Vera má að með aðferð sinni, að hvetja annan aðila til brots, geti Jóhannes sjálfur átt yfir höfði sér kæru. Hann sagði málstaðinn vel þess virði þótt svo færi að hann yrði kærður. Það yrði ekki í fyrsta skipti.



Vafasöm fortíð

Ekki bara er aðferðin sem Jóhannes Gísli beitir umdeild, sjálfur er hann umdeildur fyrir ýmis vafasöm ummæli sem hann hefur látið falla á samfélagsmiðlum. Og þá þykir mörgum það skjóta skökku við að hann af öllum mönnum sé orðinn riddari réttlætisins þegar litið er til brotaferilsins. Jóhannes Gísli sagðist ekki vera neinn engill í viðtalinu í Íslandi í dag.

Hvað ert þú að gera hér? Fjölmörg stór fréttamál hafa verið opnuð með aðferðum falinna myndavéla og tálbeita. En, aðferðin er umdeild innan blaðamennskunnar og er ýmislegt sem þarf að varast.
DV hefur í gegnum tíðina fjallað um feril Jóhannesar Gísla og 2016 greindi blaðið frá því að hann hefði verið dæmdur í sex mánaða fangelsi vegna umfangsmikilla fjársvika úr vefverslun ELKO. Vettvangur glæpa hans hefur einkum verið alnetið.

Blaðið hafði áður greint frá málinu en þá harðneitaði Jóhannes Gísli sök og hótaði blaðinu málsókn. Í dómnum kemur hins vegar fram að Jóhannes Gísli hafi fjórum sinnum pantað vörur fyrir eina milljón króna, meðal annars Samsung 43“ snjallsjónvarp og iMac fartölvu og sent falsaða greiðslukvittun í tölvupósti. Hann sótti vörurnar næsta dag. Jóhannes afplánaði á Kvíabryggju.

Hrappsháttur á netinu

Svo áfram sé vitnað í DV þá greinir blaðið frá því að hann hafi þrisvar hlotið dóma fyrir auðgunarbrot: dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára í maí 2012. Þá var hann dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði bundna skilorði, í janúar 2014 fyrir margvísleg brot, meðal annars fyrir að selja sama símann þrisvar sinnum á bland.is. Síðar sama ár var hann dæmdur í eins mánaða fangelsi fyrir fjársvik, skilorðsbundið til tveggja ára:

Hann hefur stofnað fjölmargar vefsíður sem meðal annars hafa gengið út á tölvuviðgerðir, stefnumót, ólöglegar útsendingar á enska boltanum, fréttir af frægu fólki og hópkaupasíðu.

Árið 2014 fjallaði DV um vefsíðuna Knattspyrna.is sem Jóhannes Gísli hafði stofnað og lofaði þá ódýrum netútsendingum m.a. frá enska boltanum, en 365 var rétthafi útsendinga og vildi meina að um kolólöglegt athæfi væri að ræða. Hann skrifaði þá í athugasemd við þá umfjöllun að síðan væri hýst á erlendum netþjónum og kæmi því 365 ekkert við.

Jóhannes Gísli hefur komið víða við og hér getur að líta mynd sem hann birti af sér með Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins.
„Einnig vil ég taka fram að þetta eru engin svik. Ég hef snúið við blaðinu og mun ekki svíkja fé af fólki.“

Draumurinn um að verða blaðamaður

Fréttatíminn er vefur á netinu sem kynnir sig sem óháðan fréttamiðil. Hins vegar leikur liggur ekkert fyrir um eignarhald né heldur hverjir skrifa þær fréttir sem þar eru sagðar. Kvittur komst á um að þar héldi téður Jóhannes Gísli meðal annarra um penna og væri að skrifa fréttir auk þess sem hann ætti lénið.

Eins og áður sagði hefur DV haft vakandi auga með Jóhannesi Gísla og greindi frá því í upphafi árs að svo væri í pottinn búið en skráður eigandi væri Guðlaugur Hermannsson fiskkaupandi. Guðlaugur neitaði allri aðkomu Jóhannesar Gísla en í myndbandi við eina frétt á Frettatiminn.is mátti hins vegar heyra rödd Jóhannesar Gísla þar sem hann titlar sig blaðamann. DV fjallar um þennan sérkennilega flöt á ferli Jóhannesar Gísla í dag og segir í blaðinu:

DV hefur haft vakandi auga með Jóhannesi Gísla Eggertssyni undanfarin árin.
„Aðspurður sagðist Jóhannes ekki starfa hjá Fréttatímanum en dró það síðan til baka og viðurkenndi að hann hefði verið hræddur um að verða dæmdur fyrir fortíð sína. Draumur hans væri að vera blaðamaður.“

Tálbeituaðferðin umdeild

Ekki er það bara svo að tálbeituaðferðin sé umdeild sem slík, út frá réttarfarslegum forsendum, svo sem þeirra að réttur sakborninga til varna sé fyrir borð borinn líkt og Karólínu Finnbjörnsdóttur lögmaður og lagakennari bendir á, þá er þessi aðferð einnig umdeild innan blaðamannastéttarinnar.

Vissulega er það svo að mörg stór fréttamál, bæði hér á landi sem erlendis, grundvallast á falinni myndavél. En, slík gögn halda ekki fyrir rétti vegna þess að talið er að verið sé að tæla menn til að fremja afbrot og í siða- og vinnureglum flestra hefðbundinna fréttamiðla er skýrt kveðið á um að blaðamenn skuli ekki villa á sér heimildir. Vandséð er að uppátæki Jóhannesar Gísla á því sviði verði til að breyta því.


Tengdar fréttir

Tálbeituaðgerð óbreytts borgara á borði lögreglu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar mál sem leiða má beint af tálbeituaðgerð óbreytts borgara undanfarna daga. Þetta staðfestir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×