Erlent

Elon Musk reykti kannabis í beinni útsendingu og fjárfestar ókyrrast

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Musk fær sér í haus.
Musk fær sér í haus. Youtube/Joe Rogan

Milljarðamæringurinn og lífskúnstnerinn Elon Musk reykti í morgun kannabis vindling í beinni útsendingu vefþáttar grínistans Joe Rogan.
Musk og fyrirtæki hans, bílaframleiðandinn Tesla, sæta nú opinberri rannsókn á Twitter skilaboðum sem Musk er grunaður um að hafa sent undir áhrifum fíkniefna.

Í þeim sagðist hann tilbúinn að taka fyrirtækið af markaði og bjóða 420 dollara fyrir hvern hlut.

Talan 420 er sérstakur kóði fyrir kannabisneyslu vestanhafs og víðar. Þá hefur söngkonan Azelia Banks haldið því fram að Musk hafi verið undir áhrifum LSD þegar hann sendi þessi tilteknu skilaboð. Segist hún hafa orðið vitni að því þegar rann af honum og hann gerði sér grein fyrir hvílíkum vandræðum þessi Twitter skilaboð gætu valdið sér og fyrirtækinu.

Í kjölfarið sendi Musk frá sér yfirlýsingu þar sem hann þvertók fyrir að hafa verið undir áhrifum kannabis þegar hann sendi skilaboðin en minntist ekki einu orði á LSD.

Nú á Musk einnig yfir höfði sér málsókn fyrir meiðyrði eftir að hann sakaði breskan kafara um barnaníð á Twitter síðu sinni. Forsaga þess máls er að Musk ætlaði sér að nota eigin hugvit og peninga til að bjarga tælensku fótboltastrákunum úr hellinum þar sem þeir festust fyrir nokkrum vikum.

Fyrrnefndur kafari sagði hugmyndir Musk óraunsæjar og bað hann að hypja sig af vettvangi til að leyfa reyndum köfurum að sinna björgunarstörfum. Musk brást við því með því að kalla manninn barnaníðing í tvígang á Twitter síðu sinni, að því er virðist án nokkurra sannana.

Fjárfestar eru farnir að ókyrrast og setja spurningamerki við dómgreind Musk. Sú ákvörðun hans að neyta kannabisefna í beinni útsendingu mun sennilega ekki róa neinn, þó að hann hafi í sama þætti fullyrt að þetta væri ekki eitthvað sem hann gerði að staðaldri.

Þess má geta að þátturinn var sendur út frá Kaliforníu þar sem ekki er ólöglegt að neyta kannabisefna.


Tengdar fréttir

Fjárfestar sannfærðu Musk um að halda Tesla á markaði

Elon Musk, stjórnarformaður og forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla birti í gær færslu á vef framleiðandans þar sem hann lýsir því yfir að hann sé hættur við áform sín um að taka fyrirtækið af markaði.

Musk segist hafa átt erfitt ár

Í viðtali sem New York Times birti dag er Musk sagður hafa helgið og grátið til skiptis á meðan viðtalinu stóð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.