Umfjöllun og viðtöl: Fram - Valur 25-25 │Jafntefli í spennuleik

Stefán Árni Pálsson skrifar
Magnús Óli Magnússon.
Magnús Óli Magnússon. Vísir/Andri Marinó
Fram og Valur gerðu 25-25 jafntefli í fyrstu umferð Olís-deildar karla í handknattleik í kvöld en leikurinn fór fram í Safamýrinni.

Valsmenn voru lengi vel með góð tök á þessum leik en Framarar neituðu ávallt að gefast upp og komu alltaf til baka. Vignir Stefánsson skoraði sjö mörk fyrir Valsara og Valdimar Sigurðsson var með sex fyrir Fram.

Af hverju fór jafntefli?

Valsmenn voru klaufar í kvöld og fékk liðið nokkur tækifæri til að gera algjörlega út um þennan leik. Það vantaði ákveðið drápseðli í liðið því þegar Valsmenn voru 3-4 mörkum gátu þeir ekki gengið algjörlega frá dæminu.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var ekkert spes og þurfa þjálfarar beggja liða að skoða þau mál vel. Það var haustbragur á leik Vals og Fram í kvöld og bæði lið gerðu of marga tæknifeila. Eðlilegt í fyrstu umferð.

Hverjir stóðu uppúr?

Vignir Stefánsson var mjög flottur í liði Vals og Andri Þór Helgason og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoruðu fimm fyrir Fram. Lárus Ólafsson kom sterkur af bekknum í markið og endaði með því að verja 7 góða bolta. Ýmir Örn Gíslason var frábær í vörninni hjá Val en hann nýtti færin sín inni á línunni aftur á móti skelfilega.

Guðmundur: Með smá heppni hefðum við tekið þetta
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.Vísir/Anton
„Menn börðust fyrir hverjum einasta bolta og strákarnir gáfust aldrei upp. Vorum frekar óheppnir í fyrri hálfleik en strákarnir voru frábærir í þeim síðari,“ segir Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir leikinn.

„En vorum við ekki bara heppnir? Eru ekki Valsararnir með langbesta liðið í deildinni. Það er mikill karakter í þessum drengjum eins og ég hef alltaf sagt og að koma alltaf til baka á móti þessu liði, það er mjög gott.“

Hann segir að með smá heppni hefði Fram unnið þennan leik í kvöld.

„Við tökum þetta stig samt sem áður allan daginn.“

Snorri: Vantaði gæði í okkar leik
Snorri Steinn er þjálfari Vals.vísir/vilhelm
„Ég er ekki sáttur með það að við höfum ekki unnið leikinn, við viljum vinna alla leiki. Það var nokkrum sinnum í þessum leik sem við náum yfirhöndinni og eru síðan klaufar að slíta okkur ekki betur frá þeim,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir leikinn.

„Leikurinn heilt yfir var ekki nógu góður hjá okkur. Gerum allt of mikið af tæknifeilum og það vantaði bara miklu meiri gæði í okkar leik í kvöld.“

Valsmenn gátu unnið leikinn með lokaskoti leiksins en Lárus Helgi Ólafsson varði frá Agnari Smára.

„Við vildum fá Agga í skot en ég hefði bara viljað fá hann í betra færi en Framarar vörðust bara vel þarna undir lokin. Við þurfum bara að leikgreina þennan leik og fara vel yfir okkar mál.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira