Íslenski boltinn

Þorsteinn: Stærsti leikur sumarsins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þorsteinn Halldórsson
Þorsteinn Halldórsson S2 Sport
Breiðablik og Þór/KA mætast í risaleik á Kópavogsvelli á morgun. Sigurvegari leiksins verður með pálmann í höndunum í toppbaráttunni í Pepsi deild kvenna.

Það eru þrjár umferðir eftir af deildinni og Breiðablik situr á toppnum með 40 stig. Í öðru sæti er Þór/KA með 38 stig, eina liðið sem hefur unnið Blika í sumar.

„Eins og þetta lítur út núna er þetta stærsti leikur sumarsins og getur ráðið miklu um framhaldið,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta er nýr leikur, við vorum ekki að spila neitt vel í fyrri leiknum. Vonandi lærum við af þeim leik, hvernig við komum inn í hann og hvað við gerðum, og tökum það góða sem við sýndum í þeim leik og lagfærum aðeins það slaka.“

Fáir spáðu Blikum í toppbaráttuna fyrir mótið en þær hafa verið óstöðvandi og unnu bikarmeistaratitilinn á dögunum.

„Við áttum að vera í einhverri baráttu en vera aðeins á eftir. Ég held bara að þessar stelpur hafi sýnt það í sumar að þær eru ekki bara ungar, þær eru góðar,“ sagði Þorsteinn Halldórsson.

Leikur Breiðabliks og Þórs/KA hefst klukkan 14:00 á morgun og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×