Handbolti

FH áfram þrátt fyrir tap

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/andri marinó
FH er komið áfram í aðra umferð forkeppni EHF bikarsins í handbolta þrátt fyrir tap gegn króatíska liðinu RK Dubrava í Kaplakrika í kvöld.

FH vann fyrri leikinn úti í Króatíu með fjórum mörkum og var því í vænlegri stöðu fyrir leik kvöldsins.

Fyrri hálfleikur var nokkuð sveiflukenndur en FH var verðskuldað með tveggja marka forystu þegar flautað var til hálfleiks, staðan 16-14.

Hafnfirðingar héldu forystunni allt fram að síðustu mínútunum þegar Króatarnir náðu að jafna. Davor Maricic skoraði tvö mörk á síðustu tveimur mínútum leiksins til þess að tryggja Króötunum 30-32 sigur.

FH fer þó áfram eftir samanlagðan tveggja marka sigur 63-61. FH mætir Benfica frá Portúgal í næstu umferð, hún verður leikin í október.

Birgir Örn Birgisson var markahæstur í liði FH með 9 mörk. Arnar Freyr Ársælsson gerði sjö. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×