Sport

Serena Williams kallaði dómarann þjóf og tapaði úrslitaeinvíginu

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Þetta er fyrsti risatitill Osaka
Þetta er fyrsti risatitill Osaka Vísir/Getty
Bandaríska tennisdrottningin Serena Williams tapaði nokkuð óvænt fyrir Japananum Naomi Osaka í úrslitum opna bandaríska meistaramótsins í tennis en mótið er eitt af risamótunum í tennis.



Williams var fyrir fram talin töluvert líklegri til þess að vinna mótið en Osaka átti frábæran leik og var óhrædd að spila gegn einhverri bestu tennisleikmanni sögunnar og fyrirmynd sinni.



Osaka vann bæði settin, 6-2 og 6-4 og tryggði sér fyrsta stórmeistaratitil sinn, og jafnframt var þetta fyrsti stórmeistaratitill sem japanskur tennisleikmaður vinnur.



Leikurinn fer hins vegar að öllum líkindum ekki í sögubækurnar fyrir sigur Osaka, heldur vegna þess að Williams missti algjörlega stjórn á skapi sínu við dómara leiksins.



Dómari leiksins gaf Williams áminningu þar sem hann taldi að þjálfari hennar hafi verið að gefa henni ráð frá hliðarlínunni en það er bannað. Williams neitaði algjörlega fyrir þessa áminningu dómarans.



Williams fékk svo aðra áminningu fyrir að brjóta spaða sinn, og þriðja áminningin kom svo þegar Williams kallaði dómarann þjóf. Fyrir það fékk hún víti og Osaka fékk stig sem kom henni í 5-3 og var þá öllum ljóst í hvað stefndi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×