Erlent

Svíar ganga til kosninga

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Úrslitin gætu orðið óvænt því um 20% Svía eiga eftir að gera upp hug sinn. Myndin er úr gamla þingsal sænska þingsins.
Úrslitin gætu orðið óvænt því um 20% Svía eiga eftir að gera upp hug sinn. Myndin er úr gamla þingsal sænska þingsins. Vísir/Elín Margrét Böðvarsdóttir
Sænska þjóðin kýs til þings í dag en kjörstaðir opnuðu víðast hvar um átta leytið í morgun. Kjörstaðir loka síðan klukkan átta að staðartíma og sex á íslenskum tíma.

Innflytjendamálin hafa verið fyrirferðarmikil í aðdraganda kosninga í Svíþjóð en Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur sakað ríkisstjórnina um að hafa forgangsraðað þörfum innflytjenda á kostnað innfæddra Svía á síðasta kjörtímabili.

Búist er við verulegri fylgisaukningu Svíþjóðardemókrata ef miðað er við nýjustu skoðanakannanir. Í síðustu þingkosningum fékk flokkurinn um 13% atkvæða en nú mælist hann með um 18% þeirra. Fylgisaukningin er mikil ógn gagnvart núverandi ríkisstjórn en búist er við fylgistapi Sósíaldemókrata, með forsætisráðherrann Stefan Lofven í broddi fylkingar, en flokkurinn mælist í skoðanakönnunum með um 25% atkvæða.

Það gæti reynst flókið að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum en búist er við spennandi kosninganótt. Um 20% Svía eftir að gera upp hug sinn og gætu úrslitin því orðið óvænt.

Innflytjendamál hafa verið í brennidepli í aðdraganda sænsku þingkosningunum.vísir/AP

Reiður sænska ríkisútvarpinu

Åkesson hefur farið mikinn um innflytjendamál en framganga hans í sænska kosningasjónvarpinu varð mikið hitamál í gær. Umsjónarmanni kosningasjónvarpsins þótti formaður Svíþjóðardemókrata ganga yfir strikið gagnvart innflytjendum á föstudaginn og gerði honum það ljóst að slíkt yrði ekki liðið.



Útspil Åkessons í framhaldinu olli miklu fjaðrafoki því hann lýsti því yfir að hann hygðist sniðganga sænska ríkisútvarpið fram yfir kosningar. Umsjónarmanni kosningasjónvarpsins var síðan skipt út fyrir annan starfsmann eftir uppákomuna.


Tengdar fréttir

Vilja atkvæði um Swexit

Tæp 70 prósent Svía eru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu, ESB, samkvæmt könnun frá því í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×